141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé deginum ljósara að fyrir sveitarfélagið Skaftárhrepp þarf að leiða þangað með einum eða öðrum hætti þriggja fasa rafmagn til að jafnt landbúnaðurinn á því svæði sem og hugsanlega önnur tækifæri geti orðið að veruleika. Ég held að heimamenn hafi náð ákveðinni sátt um þá virkjun sem nú hefur verið færð til, annars hefði slíkt aldrei verið sett í aðalskipulag.

Ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti verði þeir sem ætla að ráða för þessarar rammaáætlunar að svara Skaftárhreppi því hvernig þeir ætli að sjá til þess að þangað komi þriggja fasa rafmagn ef ekki á að virkja á þeim stað sem heimamenn hafa sjálfir óskað eftir. Í mínum huga gefur það auga leið að menn verða að svara og veita sveitarfélaginu þá von sem það batt við að ef virkjað yrði hefði það í för með sér ákveðna uppbyggingu innan sveitarfélagsins í landbúnaði, eins og ég hef margoft sagt, í iðnaði og fleiri þáttum væntanlega, það verður að svara væntingum fólks til þess að virkjað yrði og síðan þess að ekki verði virkjað. Hvernig á að koma til móts við að það fái til dæmis hið margrædda þriggja fasa rafmagn? Mér finnst sá meiri hluti sem stendur að baki þessari áætlun þurfi einfaldlega að svara því.