141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Við höfum kallað eftir því í þessari umræðu að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir þannig að hægt sé að beina spurningum til þeirra. Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur tæpast sést í umræðunni. Jú, við höfum séð hann í fjölmiðlum og heyrt hann brúka munn við forseta ASÍ. Það er hans aðkoma að þessari umræðu. Að vísu sat hæstv. umhverfisráðherra hér fram á nótt síðastliðna nótt, en sagði ansi lítið þótt hún tæki til máls. Það hefur nefnilega komið í ljós, sem margir hafa bent á, að með því að ryðjast inn í ferli rammaáætlunar eins og ríkisstjórnin er að gera núna og færa til virkjunarkosti þá er verið að keyra ákveðin landsvæði niður. Það er grafalvarlegt að í gangi sé einhver hentistefna þar sem heilu byggðarlögunum og samfélögunum er kippt úr sambandi við alla atvinnuuppbyggingu. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð á þeim málum og hvernig komið er.

Hér er tæpast hagvöxtur. Hagvöxtur mælist aðeins vegna þess að fólk er að taka út séreignarsparnaðinn sinn. Það er enginn vilji hjá ríkisstjórninni að skapa hér störf. Á endanum sjá náttúrlega allir í hvaða farveg þessi mál eru komin, að ríkisstjórnin skuli vera komin upp á kant við verkalýðshreyfinguna sjálfa, sjálf vinstri stjórnin sem ætlaði að breyta hér öllu eins og frægt var. Allir vissu náttúrlega að það voru bara innantóm kosningaloforð og froðusnakk. Það er heldur betur að koma á daginn.

Að lokum langar mig til að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur: Hvað sér hún fyrir sér í framhaldi samskipta ríkisstjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar? Kemur þetta til með að hafa afdrifaríkar afleiðingar? Ég minni á að Hermann Jónasson (Forseti hringir.) sleit stjórnarsamstarfinu á fjórða áratugnum þegar ríkisstjórn hans lenti upp á kant við verkalýðshreyfinguna. Er einhver von til þess að mati (Forseti hringir.) þingmannsins að slíkt sé í bígerð nú?