141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það hér áðan að menn yrðu að leggja til með hvaða hætti þeir ætluðu að leggja þriggja fasa rafmagn í Skaftárhrepp. Það er komin hér tillaga frá hv. þingmanni sem segir að svo sé. Ég legg þá til að þeim fjármunum sem á að veita í annars konar uppbyggingarverkefni í Skaftárhreppi upp á 299 milljónir á næstu þremur árum, 900 milljónir samtals, verði varið með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir, til þess að efla landbúnað og sveitarfélagið sjálft til sjálfbærni. Í mínum huga er það algjörlega ljóst að sú ákvörðun sem tekin hefur verið með fjárfestingaráætluninni, að setja á laggirnar ferðamannastofu á Kirkjubæjarklaustri, þótt það sé góðra gjalda vert, muni ekki styðja með sama hætti við blómlega byggð á því svæði og þriggja fasa rafmagn.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður segir, að hann eigi ættir að rekja þarna austur fyrir, þá vill svo til að ég á það líka og þekki ágætlega til. Sveitarstjórnin þar er í það minnsta búin að koma sér saman um að setja virkjun á aðalskipulag. Það er oftar en ekki fyrsta skref, virðulegur forseti. Hins vegar hef ég meiri trú á fólki en svo að einhverjum pótintátar úr Reykjavík eða norðan úr landi eða hvaðan sem er geti komið í sveitarfélög og dinglað einhverjum peningum framan í fólk og keypt það með þeim hætti. Ég hef miklu meiri trú á fólki en hv. þm. Þór Saari hvað það varðar. Ég held að fólk sé ekki falt.