141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kann að vera að hv. þm. Þór Saari líti á þær breytingar á rammaáætlun sem gerðar hafa verið sem tilraun til sátta. Mér hefur bara heyrst í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að svo sé ekki og að það hafi komið úr fleiri flokkum en Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum að menn séu ekki á eitt sáttir um þá rammaáætlun sem nú liggur fyrir.

Ég ítreka, virðulegur forseti, það sem ég sagði hér áðan. Mér finnst þetta verkefni, rammaáætlun um orkunýtingu og vernd, vera svo stórt mál að það eigi að leita allra leiða til að ná meiri og betri sátt en mér virðist vera innan þings varðandi þessa þingsályktunartillögu. Ef ég man rétt var einn þáttur í samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og vinnumarkaðarins almennt sá að farið yrði í virkjunarframkvæmdir í Þjórsá. Það var eitt af þeim samkomulagsatriðum sem gerð voru. Það samkomulag er í það minnsta brotið. Ég biðst forláts ef þetta er röng túlkun, en ég tel svo vera.

Einhverra hluta vegna stöndum við uppi með þann ágreining sem er í þessu máli innan þings og utan. Ég tek það fram að ágreiningurinn er á báða bóga þannig að hann er ekki bara á annan veginn. Um þetta er ágreiningur. Kannski verðum við að lokum sammála um að um þetta verði ágreiningur. Mér þætti það mjög miður, virðulegur forseti. Ég teldi hitt affarasælla.

Þegar ég talaði hér um komandi kynslóðir hef ég ekki þá trú að þó að þessi rammaáætlun eða einhver önnur verði samþykkt verði hún óbreytanleg. Þetta er þingsályktunartillaga, þetta er tillaga sem hægt er að breyta. Telji komandi kynslóðir að þær vilji hafa annan hátt á hafa þær til þess fullt umboð á nákvæmlega sama hátt og Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) ætlar sér að hafa fullt umboð hér og nú.