141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem segja að þegar litið er yfir ferlið allt var reynt að vanda til verka eins og hægt var. Þeir sem tóku þetta erfiða verk að sér gáfu sig alla í það og okkur ber að þakka þeim fyrir sína vinnu. Eftir stendur samt sem áður að sú vinna er ekki hafin yfir gagnrýni þó að menn hafi að sjálfsögðu gert sitt besta. Það sem við þurfum að gera fyrir vinnu við næstu rammaáætlun er að meta það hvort aðferðafræðin þurfi að vera önnur. Þarf aðra aðferðafræði við ákveðna þætti?

Mig langar að lesa aðeins upp úr umsögn og gagnrýni fulltrúa Suðurorku ehf., en þar segir, með leyfi forseta:

„Þannig var á einum fundi hent út öllum byggðasjónarmiðum/efnahagssjónarmiðum úr rammaáætlun vegna þess að faghópur II réð ekki við verkefni sitt. Þetta hafði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þá virkjunarkosti sem augljóslega höfðu sterk jákvæð áhrif á nærsamfélag sitt svo ekki sé talað um þjóðhagslegar afleiðingar.“

Ef þessi umsagnaraðili hefur eitthvað til síns máls, sem ég er í sjálfu sér kannski ekki algjörlega fær um að dæma því að hver og einn verður að meta það út frá þeim gögnum sem hann hefur, virðist vera að sjónarmiðum er lúta að framtíð byggðarlaga eða möguleikum á að vaxa, nýta orkuna í bæjarlæknum eða eitthvað slíkt — þegar ég tala um bæjarlæk á ég kannski við fljót frekar en læk, en samt í næsta nágrenni — hafi verið vikið til hliðar vegna þess að það var erfitt að ná utan um verkefnið, erfitt að meta áhrifin. Það segir okkur að við þurfum að finna mælikvarða fyrir þennan veigamikla þátt fyrir vinnu við næstu rammaáætlun.

Frú forseti. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að það var ekki fyrr en að núverandi ríkisstjórn tók við rammaáætlun að hér fór að gæta óvissu og óánægju með niðurstöðuna og vinnubrögð.