141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur við að líkja megi ástandinu á Íslandi við stríðsástand. Stjórnvöld eru í stríði. Ekki bara við minni hlutann hér á Alþingi heldur við Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, ferðaþjónustuna og hægt er að telja upp; aldraða, öryrkja. Hvergi er sátt. Einstrengingsháttur í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar er að kristallast mjög nú þessa dagana og við sjáum afleiðingarnar.

Þetta kemur mjög vel í ljós í þessu máli og málsmeðferð þess hér á Alþingi. Það er með engu móti hægt að rökstyðja að einhver sáttaskref séu stigin í þeirri rammaáætlun sem lögð er hérna fram, einu því mikilvægasta máli sem þingið fjallar um. Þetta er nákvæmlega eftir bókinni. Boðið hefur verið upp á að fresta umræðum um málið. Afgreiða það síðar, taka hér á dagskrá þau mikilvægu mál sem þingsins bíða, við að afgreiða fjárlög næsta árs og tengd mál. Við erum tilbúin í það, á meðan við vinnum að því á vettvangi þingsins að ná kannski einhverri sátt um þessa mikilvægu rammaáætlun. Taka tillit til þeirra sjónarmiða sem meðal annars komu fram hjá Alþýðusambandinu í gær, en það skal böðlast áfram. Það er öllu svarað með (Forseti hringir.) hroka og yfirlæti og afleiðingarnar eru að koma í ljós. Nei, ég held, virðulegi forseti, að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) að það er engri ríkisstjórn sætt þegar staðan er orðin eins og hún er í dag. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn þarf, eins og hefur komið fram í umræðunni fyrr í dag, að skila lyklunum.