141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessa ræðu. Við erum sammála um að rammaáætlun þurfi að vera lifandi plagg og forsendurnar sem lagðar eru til grundvallar geti tekið breytingum í ferlinu og til lengri framtíðar. Það er eðlilegt og nauðsynlegt.

Í fyrra samþykktum við samhljóða á þingi löggjöf um rammaáætlun og gáfum rammaáætlun lagalegt gildi og bundum í lög hvernig vinnulagið ætti að vera. Það var gert í nokkuð góðri sátt. Ég átti þá sæti í hv. iðnaðarnefnd sem fjallaði um málið og það var mjög góð sátt um það í nefndinni. Ég man ágætlega eftir umræðunum og segja má að sá andi hafi svifið yfir vötnum í starfi nefndarinnar að ákveðið traust ríkti gagnvart þeim faglegu vinnubrögðum sem viðhöfð voru í verkefnisstjórninni og í faghópunum. Ef ég man rétt var þess sérstaklega getið í nefndaráliti hversu fagleg vinnubrögðin hefðu verið og vinnulag allt rómað.

Það er mitt mat að svigrúmið sem ráðherrum málanna var gefið í þessum lögum, að senda málið til umsagnar og koma síðan tillögunni til þingsins, hafi verið misnotað. Ráðherrar hafi í raun misbeitt því valdi sem þeim var gefið vegna þess að að mínu mati komu ekki fram neinar veigamiklar nýjar upplýsingar í þeim umsögnum sem ekki höfðu komið fram í öllu ferlinu áður sem (Forseti hringir.) hafði verið mjög opið. Ég vil heyra frá hv. þingmanni hvort hann geti verið sammála mér um að ráðherrarnir hafi brugðist því trausti (Forseti hringir.) sem þingið lagði í lagasetninguna.