141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að forseti Alþýðusambandsins hafi sagt sig úr Samfylkingunni miðað við viðbrögð ráðherra ríkisstjórnarinnar og þann ótrúlega ósvífna málflutning sem þeir hafa haft uppi gagnvart Alþýðusambandi Íslands. Það er rétt að halda því til haga að forseti Alþýðusambandsins starfar í umboði félagsmanna sinna og það eru 112 þús. manns, 1/3 þjóðarinnar, að baki þessum samtökum. Það er því hreint með ólíkindum að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli hella sér með fúkyrðum yfir forseta Alþýðusambandsins sem er líklega ein stærsta, ef ekki stærsta fjöldahreyfing á Íslandi. Ég verð bara að segja að það sýnir — og ég, frú forseti, er kannski ekki frægur fyrir að hæla sérstaklega forseta Alþýðusambands Íslands, við skulum halda því til haga — í raun mikinn kjark að hann skuli hafa sagt sig úr Samfylkingunni. Það sýnir að menn láta ekki allir beygja sig.

Varðandi fjárfestingaráætlunina og kjarasamninga höfum við gagnrýnt það að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinu vegna kjarasamninga, í það minnsta ekki áður en frumvarpið fór til nefndarinnar. Ríkisstjórnin ætlaði bara að láta kjarasamningana sigla fram hjá sér einhvern veginn. Í það minnsta taldi hún ekki ástæðu til þess að gera ráð fyrir einhverjum aurum þeirra vegna í fjárlögum.

Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er náttúrlega grín, hún er bara grín. Í fyrsta lagi sýnist manni að verið sé að búa til ný nöfn á þætti sem áður voru í safnliðum fjárlaganefndar, setja þá í skárri búning. Það er bara mjög gott ef svo er. En að öðru leyti er ósköp lítið í þessari fjárfestingaráætlun sem mun leiða til meiri hagvaxtar, (Forseti hringir.) fjölgunar starfa og uppbyggingar. Þetta er fyrst og fremst sýndarmennska og ekkert annað.