141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn kallaði eftir því hvað væri eftir af stefnumálum ríkisstjórnarinnar, hverju hægt væri að byggja á til framtíðar, og minntist á skjaldborg heimilanna. Kannski er það velferðarbrúin, það var nú einn frasinn sem fundinn var upp fyrir kosningar, velferðarbrú og skjaldborg um heimilin. En það er, má segja, nánast ekkert sem stendur eftir af kosningaloforðum ríkisstjórnarinnar. Mjög merkileg tíðindi hafa gerst hér í dag og í gær, eins og hv. þingmaður fór yfir, þ.e. árekstur ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna sem eru fjölmennustu samtök hér á landi.

Þessi árekstur er líka svolítið merkilegur í ljósi þess að ASÍ hefur ályktað um ESB-málið, að halda beri viðræðunum áfram. En þegar vantraustið er orðið slíkt, eins og ljóst varð í dag, að forseti ASÍ segir sig úr Samfylkingunni þá er nú heldur farið að fjara undan ríkisstjórninni.

Það er líka svolítið merkileg þessi tækni sem ríkisstjórnin hefur tamið sér. Um leið og einhver verk hennar eða ákvarðanir eru gagnrýnd þá eru viðkomandi aðilar hiklaust teknir niður, má segja. Farið er af stað með mikinn kór á móti viðkomandi einstaklingum, það þekkjum við úr stjórnarskrármálinu, fiskveiðistjórnarmálinu og rammaáætlun. Og nú allt í einu telur hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, að vel meinandi háskólaprófessorar séu ekki nógu góðir fræðimenn vegna þess að þeir hafa til dæmis gagnrýnt stjórnarskrármálið.

Mig langar að lokum að spyrja hv. þingmann: Hvað heldur hann um framgang þessa máls í þinginu? Verður okkur haldið hér í þessu máli (Forseti hringir.) þrátt fyrir að búið sé að biðja um fund í umhverfisnefnd sem ekki var orðið við? Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér hvað varðar helgina?