141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Menn hafa verið að ræða afleiðingar þess að hægja á mögulegum bata í efnahagslífinu með því að leggja til hliðar þá virkjunarkosti sem hvað auðveldast er að fara í, ef ég má orða það þannig. Við höfum séð að eftir að Alþýðusamband Íslands steig fram og mótmælti meintum svikum ríkisstjórnarinnar hafa fleiri komið fram og gagnrýnt ríkisstjórnina. Einn af þeim er fyrrverandi hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason, sem gagnrýndi skort á efnahagsáætlun fyrir landið.

Ég spyr: Er það þá ekki í takti við þá sýn sem núverandi ríkisstjórn hefur á framtíðina, þ.e. að engin áætlun sé til? Menn hafa ekki áætlun um hvernig halda eigi áfram að vera hér með samfélag sem lifir á því að framleiða vörur og þjónustu og skapa eitthvað skemmtilegt og spennandi eins og Íslendingar hafa gert árum saman, hvort sem það er nú með því að nota orku eða eitthvað annað. Engin efnahagsstefna virðist vera við lýði, engin stefna um hvernig eigi að vinna með aðilum vinnumarkaðarins eða nokkrum öðrum. Stefnuleysið virðist algert.

Ég hlýt því að spyrja hvort hv. þingmaður taki undir gagnrýni hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem kemur í kjölfarið á því að ASÍ gagnrýnir ríkisstjórnina og meðal annars fyrir rammaáætlun sem við ræðum hér, að þar skorti framtíðarsýn. Ég spyr hvort þingmaðurinn taki undir þá gagnrýni sem fram kemur að skortur á stefnu í efnahagsmálum til framtíðar sé slíkur að (Forseti hringir.) það hafi orðið til þess að upp úr sauð milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.