141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að þegar við skoðum fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og systurflokks hennar, Bjartrar framtíðar, þá er þar ekki að finna eitt einasta verkefni sem treystir á að orka sé nýtt til atvinnusköpunar. Fjárfestingar sem tengjast nýtingu á orku, hvort sem það er jarðhiti eða vatnsafl, finnast bara ekki. Hér eru taldir upp margir liðir sem eru margir hverjir mjög undarlegir, algerlega án þess að færa rök fyrir því að þeir skapi störf eða hagvöxt. Þeir skapa vissulega útgjöld, margir hverjir. Þannig að metnaðinn fyrir því að vera hér með öfluga efnahagsáætlun og vera með öfluga atvinnusköpun og atvinnuuppbyggingu er hvergi að finna í þeim málum sem ríkisstjórnin leggur hér fram fyrir okkur þingmenn og reynir að fara með í gegn.

Við hljótum að þurfa að viðurkenna það Íslendingar að við eigum ákveðnar auðlindir sem eru og hafa alla tíð skapað okkur þau lífsskilyrði sem við höfum. Við verðum að sjálfsögðu að nýta þær áfram. Auðvitað er margt með, margir góðir hlutir. En að stóla eingöngu á byggingar á húsum fyrir fræðimennsku eða sýningu í Náttúruminjasafni, græn skref og grænar fjárfestingar er í besta falli galið, ég ætla að leyfa mér að segja það. Það er algerlega augljóst að það er enginn alvörumetnaður í því hvernig á að rífa landið áfram, ég bara orða það þannig. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort allt þetta tal um traustan efnahag til framtíðar séu bara innantóm orð, ekki síst þegar við sjáum tillögurnar svart á hvítu fyrir framan okkur.

Efnahagsáætlun skortir og framtíðarsýnin er engin, hvort sem viðkemur orkunni, sjávarútveginum eða einhverju öðru.