141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni, þ.e. þau störf sem verða til, þá vildi ég koma aðeins inn á það í þessu andsvari sem mér finnst einmitt áhugavert í umræðunni ef við reynum að líta heildstætt yfir hana. Sumir eða kannski flestir af þeim sem aðhyllast skoðanir meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli og leggja það fram hafa kosið að líta fyrst og fremst á það sem umhverfismál, að það snúist fyrst og fremst um að koma sem flestum virkjunarkostum úr nýtingarflokki í annaðhvort í biðflokk eða verndarflokk. Óánægja þeirra með rammaáætlunina og allir fyrirvarar snúast um að ekki hafi verið gengið nógu langt í að setja kosti úr bið í vernd og jafnvel úr nýtingarflokknum. Rammaáætlun átti að snúast um það að vera grundvöllur hagkerfis okkar til að byggja nýtingarrétt náttúruauðlinda á. Þetta er því sérkennilegt í meira lagi, eða kannski er það ekki sérkennilegt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé hin raunverulega efnahagsstefna, sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir að sé ekki til, að þegar fólk er fallið fram af bjargbrúninni, þegar fólk er að missa húsin sín, þegar fólk er búið að vera atvinnulaust í þrjú ár þá eigi að gera eitthvað, þá eigi að fara að skapa störf. Þau störf eru reyndar í anda McKinsey-skýrslunnar, að við eigum að færa 13 þús. störf á næstu árum í arðsamari störf. Auðvitað er þetta gott verkefni og gott að koma fólki af atvinnuleysisskrá en það virðist skorta á þann skilning að rammaáætlun snúist einmitt líka um það að skapa arðsöm störf sem sannarlega eru fyrir hendi í orkugeiranum (Forseti hringir.) og þeim fyrirtækjum sem nýta orkuna.