141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:15]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að í þessari þingsályktunartillögu, eins og hún kemur frá ráðherrunum og stendur til að afgreiða af meiri hluta nefndarinnar, er búið að hverfa frá mjög arðbærum vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi og vil ég nefna virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Ég er að sjálfsögðu ósátt við það og hef flutt hér í fyrri ræðum rök fyrir því af hverju ég tel að þetta séu mjög arðbærar virkjanir. Ég hef líka nefnt fleiri virkjanir sem eru settar í biðflokk þrátt fyrir að komin séu frekari gögn varðandi Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðan við Atley í Skaftárhreppi. Það eru virkjanir sem eru með stuðning frá heimamönnum, búið er að safna gögnum og bæta — eru með mótvægisaðgerðir til dæmis út af uppblæstri og öðrum vandamálum.

Þetta er allt sett í bið. Ég tel að það sé röng ákvörðun. Þingmaðurinn spyr hvort ég telji að það sé rétt að hverfa frá vatnsaflinu yfir í háhitavirkjanir. Ég vil ekki líta þannig á það. Ég tel rangt að hverfa frá þessum vatnsaflsvirkjunum en ég tel ekki að það sé spurning um annaðhvort eða. Ég er hlynnt því að kostirnir á Reykjanesi séu í nýtingarflokki vegna þess að það er ekki þannig að um leið og þeir eru komnir í nýtingarflokk sé bara grafan á þetta og allt af stað, eins og ég hef ítarlega farið yfir í öðrum ræðum. Þetta er bara fyrsta skrefið. Það er kallað eftir frekari rannsóknum á háhitasvæðunum en þær verða ekki gerðar nema virkjunarkostir fái að vera í nýtingarflokki því ef þeir eru í biðflokki má ekki vera með tilraunaboranir og þá getum við ekki aflað okkur þeirrar nauðsynlegu þekkingar sem við þurfum.

Síðari spurningunni ætla ég að fá að svara í síðara (Forseti hringir.) andsvari mínu.