141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt. Ég var ekki heldur að víkja neitt að því að hv. þingmaður væri á móti nýtingu jarðhitans. Ég var eingöngu að reyna að setja þetta í það samhengi sem mér finnst skipta svo miklu máli. Það sem ég var að benda á er að í raun og veru er þessi rammaáætlun eins og hún er lögð upp á vissan hátt tilræði við hugmyndina um sjálfbæra nýtingu. Það bendir Orkustofnun einmitt á: Með því að ýta út þessum vatnsaflsvirkjunum mun myndast þrýstingur, m.a. pólitískur, á að fara af meiri krafti og meiri ákefð í nýtingu á jarðhitanum. Það er ekki endilega skynsamlegt. Það er miklu betra að fara aðeins hægar í sakirnar. Það er eiginlega kjarni málsins.

Það sem er hins vegar svo alvarlegt í þessari rammaáætlun núna er að búið er að taka út hagkvæmustu og mest og best rannsökuðu kostina, svo sem eins og neðri hluta Þjórsár. Það er búið að ýta þeim til hliðar og það eru auðvitað óskiljanleg skilaboð.