141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer hef ég ekki skilning á því sem fer fram í hugskoti þingmanna Vinstri grænna og þeirri stefnu sem þeir standa fyrir (Gripið fram í.) því að ég skil einfaldlega ekki svona hugsunarhátt. Ég get ekki sett mig inn í svona hugsunarhátt og ég reyni ekki að skilja hann. En þetta er einmitt dæmi um tvískinnunginn í þessum efnum því að umhverfismál eru pínulítið þannig að það eiga allir að vera góðir og bera virðingu fyrir náttúrunni en svo gera menn eitthvað annað með hinni hendinni. Sem dæmi byggir Evrópusambandið mjög á þessari mýtu um umhverfismál, það bjó til heilt kvótakerfi, verðmæti úr loftinu, kallar það losunarkvóta. Evrópusambandið er nú að einangrast með þann kvóta, það er nú þegar orðinn stóriðjuleki úr Evrópusambandinu vegna þess að aðrar þjóðir taka ekki þátt í því að kaupa og selja þennan kvóta.

Ég fagna eins og þingmaðurinn olíuleit á Drekasvæðinu. Mér finnst það stórkostlegt. Það var einstaklega ánægjulegt að Norðmenn (Forseti hringir.) lögðu fram frumvarp í norska þinginu í gær sem leiðir til þess að þeir ætla að taka þátt í verkefninu með okkur. Þannig að ég er mjög bjartsýn (Forseti hringir.) til framtíðar fyrir íslenska þjóð. Við þurfum bara að losna við þessa ríkisstjórn.