141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður nefndi fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hef heyrt hv. þm. Jón Gunnarsson tala mjög niður til fjárfestingaráætlunarinnar og hann gengur út frá því að hún muni ekki skila nokkrum sköpuðum hlut.

Það var talað um að minnka atvinnuleysi. Atvinnuleysi hefur minnkað á Íslandi. Eins og við vitum fór það upp í 9–10% þegar mest var eftir hrun og það hefur auðvitað dregið verulega úr því. Er það enginn árangur til að mæta því sem þarna er verið að tala um? (Gripið fram í.)

Fjárfestingaráætlunin er á sínum stað, hún skilar mjög miklu en ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson sér engin atvinnutækifæri í öðru en gamaldags stóriðju, orkufrekum iðnaði, stóriðju og hvalveiðum. Það er það eina sem hv. þm. Jón Gunnarsson sér þegar kemur að því að skapa atvinnu í þessu landi. Og ég er ósammála því.