141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:12]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég var staddur á sama fundi, sameiginlegum fundi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar, á laugardagsmorguninn og verð að segja alveg eins og er að það var mjög áhugaverður og upplýsandi fundur. Lengi framan af voru mjög málefnalegar umræður. Það breyttist svolítið þegar kom að fyrirspurnum sumra stjórnarliða sem urðu meira í yfirlýsingaformi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki metið niðurstöðu fundarins með sama hætti og sá sem hér stendur, að þrátt fyrir að í markmiðum laga um rammaáætlun og þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir eigi að taka jafngilt tillit til efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra áhrifa og nýtingar, þar með talið verndar, hafi fundurinn staðfest þann afstöðumun sem er milli stjórnarandstöðu, sérstaklega þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, einstakra stjórnarþingmanna sem hafa komið hingað upp og sett fyrirvara við tillöguna og svo þeirra sem aðhyllast niðurstöðu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og leggja málið fram með þessum hætti. Hér er ekki tekið jafnt tillit til þessara þátta og það hefur hreinlega komið fram í málflutningi stjórnarliða á þessum fundi að það sem þeim fannst verst væri að meira að segja forseti Alþýðusambands Íslands, ekki aðeins Samtök atvinnulífsins, væri sammála stjórnarandstöðunni í því að þessi hugmynd að sátt, þar sem tekið væri jafnt tillit til ólíkra þátta, (Forseti hringir.) væri ekki meiningin, það væri þeirra afstaða að þetta ætti ekki (Forseti hringir.) að vera svona, það ætti ekki að taka tillit til þess. Hv. þingmaður orðaði það þannig að hér réðu bara atvinnumál og önnur annarleg sjónarmið.