141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um eitt mikilvægasta málið sem fyrir liggur á þessu þingi í ár og það er mikilvægt þegar við áttum okkur á forsögunni að hafa í huga að þetta er mál sem fólk úr öllum flokkum hefur tekið undir að sé og hafi verið í réttum farvegi, að ætla okkur hér að taka þetta mál upp úr pólitískum deilum, þ.e. verkefnið um hvar á að vernda og hvar á að nýta, setja það í formlegan farveg þar sem smíðuð er aðferðafræði þar sem okkar færustu sérfræðingar koma að því að raða upp virkjunarkostunum eftir því hvar er hagkvæmast, best og æskilegast að virkja og hvar er hagkvæmast, best og æskilegast að vernda.

Þegar verkefnisstjórnin í þessum áfanga rammaáætlunar var skipuð árið 2007 var alveg ljóst að pólitíkusarnir sem þá voru við völd einsettu sér að standa við þetta ferli allt til enda. Þá var iðnaðarráðherra núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Ég hef haft þá trú að við ætluðum okkur að standa við hin gefnu fyrirheit þeirra pólitíkusa sem settu þetta mál af stað á sínum tíma. Ég hef haft þá trú hingað til og hef enn trú á því að við getum komið þessu máli í réttan farveg, tekið af því þau pólitísku fingraför sem sett hafa verið á það undir formerkjum þeirrar ríkisstjórnar sem nú ræður hér ríkjum og birtist okkur í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir þar sem í nokkrum verulegum atriðum er vikið frá þeirri röðun sem verkefnisstjórn gerði í skýrslunni um rammaáætlun.

Ég sakna þess í umræðunni að sjá ekki fleiri náttúruverndarsinna tjá sig vegna þess að hér er á ferðinni mál sem hefur tekið mjög mið af þeim miklu umræðum sem átt hafa sér stað um náttúruvernd á undanförnum árum. Sú áherslubreyting sem varð árið 2007 þegar verkefnisstjórn í 2. áfanga rammaáætlunar fór af stað var mikil og fólst í því að mun meira tillit var tekið til verndar. Nýting og vernd eru settar hlið við hlið í þessari rammaáætlun og horft jafnt til beggja þessara þátta. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þeir þingmenn sem oft og tíðum berja sér á brjóst og telja sig mikla verndarsinna hafa ekki blandað sér meira í umræðuna. Hvers vegna eru menn ekki að tjá sig um þann mikla og langa lista sem fellur utan rammaáætlunar á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011? Það eru heilir sex kostir innan Vatnajökulsþjóðgarðs, og hvaða áhrif hefur þetta á þá röksemdafærslu sem heyrst hefur og notuð er til að færa Skrokköldu- og Hágönguvirkjanir úr nýtingu yfir í biðflokk miðað við þá tillögu sem formannahópurinn og fulltrúar ráðuneytanna skiluðu til ráðherra á sínum tíma? Hvaða áhrif hefur þetta á umræðuna um „buffer zones“ þegar við erum með sex virkjanir sem þegar eru teknar út fyrir rammann vegna þess að þær eru innan friðlýsts svæðis Vatnajökulsþjóðgarðs?

Síðan skil ég ekki hvers vegna ekki hafa fleiri komið hingað upp og talað um friðland að fjallabaki. Samtals sjö virkjunarkostir falla út úr rammaáætlun af þeirri ástæðu að þeir eru á friðlýstu svæði og eiga það sammerkt að vera á Torfajökulssvæðinu. Ég skil ekki hvers vegna þeir aðilar hafa ekki blandað sér í þessa umræðu. Hvers vegna hafa menn ekki tjáð sig hér um þá fjöldamörgu kosti og þá áherslu sem birtist okkur í öllum þeim kostum sem lenda í verndarflokki?

Á Suðurlandi er helst að nefna Markarfljótsvirkjanir, Tungnaá þar sem bæði er um að ræða Tungnaárlón og Bjallavirkjun. Síðan erum við að tala um Gýgjarfossvirkjun í Árnessýslu og Bláfellsvirkjun. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að menn tjái sig hér (Forseti hringir.) um það hvernig þeir líta á verndarflokkinn. Það hefur lítið verið talað um verndarflokkinn í þessari umræðu.