141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst það, eftir að hafa litið yfir öxlina á þeim sem telur, að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, og ég vissi það svo sem fyrir þar sem ég hef verið viðstaddur alla þessa umræðu, hefur ekki tekið til máls varðandi þetta mál í haust. Þegar málið var hjá iðnaðarráðherra og sent til atvinnuveganefndar síðastliðið vor hélt hún sannarlega einhverjar tölur um það en þá fékkst mjög takmörkuð umræða og var málinu síðan frestað til haustsins.

Ég tek undir að það væri mjög áhugavert að heyra sjónarmið þingmannsins sem er þingmaður Suðurkjördæmis, eins og við hv. þingmenn sem hér eigum orðastað, og var líka, eins og ég lýsti í ræðu minni, sitjandi iðnaðarráðherra á þessum tíma og stýrði ferlinu. Ég held að það væri mjög áhugavert að heyra hvort önnur sjónarmið kæmu þar fram en hjá hæstv. umhverfisráðherra, til að mynda varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Hágöngu 1 og 2 og Skrokköldu sem voru færðar úr orkunýtingarflokki í biðflokk og svo virkjanirnar tvær Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley sem sá sem hér stendur hefur lagt fram breytingartillögur að um að verði færðar í nýtingarflokk meðal annars með þeim rökstuðningi sem kemur fram í minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins frá sama tíma og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir var hæstv. ráðherra þar. Ég get ekki betur séð en starfsmenn ráðuneytisins hafi farið í ákveðna fagvinnu til að flokka þetta og metið síðan þessa tvo kosti sem bestu kostina til að færa úr biðflokki í nýtingarflokk af þeim kostum sem ekki voru kannaðir til hlítar. Það væri reyndar áhugavert að fá sambærilegar upplýsingar frá viðkomandi skrifstofu (Forseti hringir.) um þá kosti sem voru færðir úr (Forseti hringir.) nýtingarflokki í bið og rökstuðninginn á bak við það, (Forseti hringir.) en þau minnisblöð bárust ekki nefndunum við umfjöllun málsins í haust.