141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þennan nefndarfund snertir. Það er töluvert áhyggjuefni hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar í það minnsta, maður bindur þó vonir við að það eigi ekki við um ríkisstjórnarflokkana í heild sinni, slá það út af borðinu þegar upp kemur svona málefnalegur ágreiningur. Þá beita forustumenn ríkisstjórnarinnar einfaldlega þeirri nálgun að saka menn um að vera ekki trúverðugir. Það gerðu forustumenn ríkisstjórnarinnar varðandi þessa yfirlýsingu og það hafa þeir gert áður eins og hv. þingmaður benti réttilega á.

Við skulum átta okkur á því að það er ekki svo að forseti ASÍ hafi staðið einn að þessari yfirlýsingu eins og látið var í veðri vaka, heldur var um að ræða formenn allra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Allir voru sammála því að um veruleg svik væri að ræða, svik af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það má því áætla að bak við þá yfirlýsingu sem Alþýðusamband Íslands sendi frá sér sé mjög rík og breið samstaða meðal hinna almennu félagsmanna í Alþýðusambandi Íslands sem eru á annað hundrað þúsund.

Ef við setjum þessa nálgun Alþýðusambandsins á þetta mál, ef við setjum það í samhengi við kjarasamningsmál og tökum bara eina atvinnugrein út fyrir sviga, sem eru hjúkrunarfræðingar — þeir heyri kannski ekki þarna undir, en talað er um að mjög marga hjúkrunarfræðinga vanti til að mynda í Noregi, um 28 þús. Hvernig mun Alþýðusamband Íslands geta farið fram með kröfur um hærri laun og annað þess háttar (Gripið fram í.) þegar fjárfestingar og annað (Forseti hringir.) því um líkt fylgja ekki á eftir? Getur hv. þingmaður komið aðeins inn á það hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi fært nægileg rök fyrir því að svigrúm sé (Forseti hringir.) fyrir launahækkanir eða fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar?