141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að koma hér aftur. Fyrst vegna athugasemdanna varðandi Hagavatn og að við verðum að sýna ábyrgð. Auðvitað. Ég er algjörlega sammála því að við í nefndinni hefðum þá átt að gefa okkur meiri tíma til að kanna hvort þær væru rökstuddar.

En punkturinn er þessi — og þá ætla ég að fá að taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni sem gerist ekki oft: Hann sagði hér áðan að við yrðum að treysta umhverfislögum og við yrðum að treysta skipulagslögum. Það er eins með vatnsaflsvirkjanirnar og jarðvarmavirkjanirnar, það að þær séu komnar í nýtingarflokk þýðir ekki að allt fari af stað og allar aðrar reglur og lög séu sett til hliðar. Auðvitað ekki. Þetta á eftir að fara í umhverfismat. Þetta á eftir að fara í gegnum skipulagið og þess vegna er biðflokkurinn ekki einhver tafaleikur. Biðflokkinn á ekki að misnota í að vera að bíða eftir einhverjum gögnum sem eru til staðar.

Varðandi Reykjanesið og rannsóknarboranirnar leyfi ég mér að fullyrða að vandað er til verka, hvort sem það eru Eldvörpin, Sveifluhálsinn eða þau svæði sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, þá er vandað til verka. Ég veit það til dæmis í vinnunni við hverfisverndunina, sem Grindavíkurbær og HS Orka fór í varðandi Eldvörp, þá var farið með náttúruverndarsamtökum, með sérfræðingum á sviði náttúruverndar og ótal aðilum af svæðinu, ferðamálayfirvöldum, til að finna hvar hægt væri að hafa borteig. Það var reynt að hafa þetta nálægt línum, nálægt svæðum sem hafði verið raskað áður einmitt til þess að engin hætta væri á því (Forseti hringir.) að verklag yrði þannig að náttúruperlur (Forseti hringir.) mundu skemmast. Það vill það enginn. Við eigum að geta unnið (Forseti hringir.) saman að þessu og fundið farveg til að rannsaka og afla okkur þekkingar um þessi mál (Forseti hringir.) á Reykjanesinu og annars staðar.