141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar. Það er alveg rétt hjá henni að þetta skiptist í tvennt. Það er annars vegar liðir a–f, sem eru leiðbeiningar til verkefnisstjórnarinnar eða ábendingar eða athugasemdir, og hins vegar fimm liðir sem beint er til ráðherra og Alþingis. Það er annars vegar vegna þess að það kann að þurfa að gera lagabreytingar til að koma áfram þeim athugasemdum sem hér eru gerðar og hins vegar er það ríkisstjórnin, ráðherrann, sem skapar verkefnisstjórninni reglur og skrifar henni erindisbréf. Það varðar einmitt vindorku eða sjávarfallaorku því að frá upphafi hefur rammaáætlunin vissulega miðast við landsvæði í þetta skiptið en í tengingu við vatnsafl og jarðvarma, sem sé ekki aðra orku.

Nú er komin upp sú staða að Landsvirkjun er að gera þessa merkilegu tilraun. Fyrsta vindmyllan reis í Belgsholti en féll að vísu aftur, því miður, en ég vona að henni verði komið upp á ný. En Landsvirkjun er að reisa vindmyllur við Búrfell. Þær verða að vísu sennilega ekki sjálfstæðar, að minnsta kosti ekki til að byrja með, en þær geta stutt við og hjálpað orkuöflun af öðru tagi, gert hana hagkvæmari og gert það að verkum að ekki er hætta á jafnmiklum umhverfisspjöllum og annars yrði, þannig að þarna erum við strax búin að ná merkilegu upphafi á vindnýtingu og vindbúum á Íslandi.

Við vitum af merkilegum frumkvöðli sem er að reyna að búa til hverfil til að virkja sjávarföll. Við vitum líka að það getur orðið feikilega erfitt umhverfismál ef fara á að gera það af fullum krafti, en þetta eru mál sem við þurfum að fylgjast með m.a. vegna þess að við erum að verða búin með virkjanlegt vatnsafl og vegna þess að jarðvarminn er miklu vandasamari en nokkurn grunaði.