141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram urðu þau tíðindi í morgun að meiri hluti utanríkismálanefndar lagði til að hlé yrði gert á viðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema að undangengnu samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu er án efa það mál sem hefur valdið hvað mestum klofningi í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum. Hún hefur raunar valdið miklum klofningi í samfélaginu öllu og gert okkur erfiðara að fást við þau brýnu mál sem stjórnmálamenn hefðu átt að einbeita sér að á undanförnum árum; uppbyggingarmál, málefni heimilanna, atvinnumál. En sú leið sem meiri hluti utanríkismálanefndar leggur nú til virðist líklegust, ef horft er til umræðu undanfarinna mánaða, kannski undanfarinna tveggja ára, til að mynda sátt til framtíðar. Menn geti náð saman um ákveðna millileið, þ.e. að gera hlé á viðræðum, á meðan við áttum okkur á því hvert Evrópusambandið stefnir, á meðan Evrópusambandið sjálft áttar sig á því hvert það ætlar að stefna og hvers konar samband það ætlar að vera.

Ýmsar þær forsendur sem voru lagðar til grundvallar umsókninni á sínum tíma hafa ekki gengið eftir. Það hefur þegar verið staðfest, og nýlega ítrekað af hálfu Evrópusambandsins, að Íslendingar geta ekki fengið undanþágur frá regluverki sambandsins, það verði að taka regluverkið upp óbreytt. Það hefur jafnframt komið í ljós að evran hefur ekki reynst það efnahagslega skjól sem menn gerðu ráð fyrir. Það hefur líka komið á daginn að Evrópusambandið er enn, nokkrum árum eftir að umsóknin var lögð fram, ekki í stakk búið til að ræða sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin við Íslendinga vegna þess að þau mál eru að taka miklum breytingum og munu taka breytingum næstu tvö árin líklega innan Evrópusambandsins. Þann tíma getum við nýtt til að byggja upp innan lands, huga að stöðu heimilanna, huga að uppbyggingu atvinnulífs. Síðan getum við tekið ákvörðun um það, í styrkari stöðu, hvort við viljum sækja áfram um aðild að því Evrópusambandi sem þá verður vonandi búið (Forseti hringir.) að taka á sig einhverja mynd.