141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem lögð hefur verið fram í utanríkismálanefnd og bíður þar afgreiðslu og síðan eftir atvikum umræðu í þinginu á sér margar góðar og gildar ástæður. Ein er sú að af hálfu margra þingmanna var tekið fram vorið og sumarið 2009 að það væri forsenda fyrir stuðningi við umsókn um aðild að Evrópusambandinu að málið mundi meira eða minna klárast á þessu kjörtímabili. Þær forsendur hljóta í það að minnsta að vera brostnar og eðlilegt að gefa þeim þingmönnum sem höfðu þær forsendur fyrir stuðningi sínum við málið tækifæri til að endurmeta afstöðu sína.

Þróunin innan Evrópusambandsins er annað sérmál og það hvernig sambandið þróast smátt og smátt eftir eins konar einstefnugötu í átt til meira sambandsríkis.

Þriðja atriðið sem hér hlýtur líka að skipta máli er það hversu hægt hefur gengið í viðræðunum og þá sérstaklega það að ekkert hefur komið fram á þessum rúmlega þremur árum sem liðin eru sem gefur okkur tilefni til að ætla að í boði séu einhverjar varanlegar undanþágur eða sérlausnir fyrir Íslendinga í mikilvægum málaflokkum. Að minnsta kosti hljóta það að vera fyrir þingmenn sem stutt hafa ferlið fram til þessa gríðarleg vonbrigði að ekki skuli hafa verið hægt að taka alvarlega umræðu um þessa stóru mikilvægu kafla. Allt þetta verður hægt að ræða og meta komi tillagan til þingsins til umfjöllunar og á dagskrá áður en langt um líður. Því hlýtur þingheimur allur að fagna, líka þeir sem hafa stutt ferlið fram til þessa, þeir hljóta að fagna tækifærinu til að meta stöðu þessa máls. Þess vegna er tillagan fram komin og fæst vonandi tekin fyrir hér áður en langt (Forseti hringir.) er liðið á nýja árið.