141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í lok októbermánaðar fór hæstv. forseti Alþingis í opinbera heimsókn til Indlands og í fylgdarliðinu var sú sem hér stendur og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Við heimsóttum meðal annars þingið í Nýju-Delí. Okkur brá við viðbrögð þingmanna þegar fyrsta málið var tekið á dagskrá. Þingmenn hrópuðu og kölluðu svo ekki heyrðist mannsins mál í salnum, nokkrir stóðu upp og umkringdu stól forsetans. Forseti þingsins greip til þess eina ráðs sem hann hafði, sem var að fresta fundi.

Í samtölum okkar á milli og í samtölum við gestgjafa okkar ræddum við þetta og lýstum áhyggjum okkar af lýðræðinu í Indlandi, og það gerðu þeir reyndar líka, og hvernig það væri borið fram á þinginu þar sem minni hluti þingmanna kæmi hvað eftir annað í veg fyrir að mál kæmust á dagskrá eða mikilvæg mál væru afgreidd.

Virðulegi forseti. Í því málþófi sem hefur staðið yfir á Alþingi marga undanfarna daga hefur mér verið hugsað til vinaþjóðar okkar á Indlandi og þeirra vandamála sem þeir glíma við á þjóðþinginu. Ég hef haft áhyggjur af því að minni hlutinn á Alþingi Íslendinga væri með málþófi að koma í veg fyrir að mikilvæg mál kæmust á dagskrá eða þau afgreidd, þó með háttvísari hætti en gert er á Indlandi en leikreglur lýðræðisins sniðgengnar á sama hátt. Ég hef haft af þessu áhyggjur en þær reyndust sem betur fer óþarfar því að sátt um þingstörfin hefur náðst. Því fagna ég, virðulegi forseti, og vænti þess að þingstörfin gangi vel fram til jóla.