141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferðina á frumvarpinu við afgreiðslu fyrir 3. umr. Hv. þingmaður kom inn á það í lok ræðu sinnar að Sjálfstæðisflokkurinn væri að eyða gögnum og með sögufalsanir. Þá er kannski viðeigandi að spyrja hv. þingmann út í þær breytingar sem hafa orðið á textanum í tillögunni um hvernig staðið skuli að uppbyggingu á náttúruminjasýningunni. Þegar málið er tekið út er sagt að aðgangseyrir eigi að standa undir leigu og rekstri en síðan þegar ég sé meirihlutaálitið eftir að búið er að prenta það upp er þessi texti fallinn út. Ég bið hv. þingmann að útskýra það.

Hv. þingmaður kom líka í lok ræðu sinnar inn á einhæfni í hugmyndum framsóknar- og sjálfstæðismanna um atvinnuuppbyggingu. Það kom fram í andsvörum við varaformann nefndarinnar, hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson, við 2. umr. að gert væri ráð fyrir 2,6 milljörðum sem vantaði til að fara í uppbygginguna á Bakka. Þeirra sér ekki stað hér og ég mundi vilja fá svar við því frá hv. þingmanni

Svo kom hv. þingmaður sérstaklega inn á kynjaða fjárlagagerð og því spyr ég hvort hann sé stoltur af verkum ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram fyrir örfáum dögum um að einmitt kvennastéttirnar hefðu setið eftir á síðustu missirum.

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann um þær upplýsingar sem ég hef kallað mjög eftir og hv. þingmaður ætlaði að koma til mín sem snúa að leigugreiðslum til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Um það hefur verið samkomulag að Fasteignir ríkissjóðs hafa gefið 33% afslátt af þessum leigugreiðslum. Í meðförum nefndarinnar hefur komið í ljós að þetta er ekki alveg með vissu hjá velferðarráðuneytinu og ekki heldur fjármálaráðuneytinu. Getur hv. þingmaður upplýst mig um hvernig það mál (Forseti hringir.) stendur?