141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í það minnsta hafa samflokksmenn hv. þingmanns talað mjög ákveðið gegn þeim tillögum og hugmyndum í fjárlagafrumvarpinu sem stuðla að vexti hinna skapandi greina. Þeir hafa lagst gegn allri tekjuöflun til að setja í hinar skapandi greinar, listir og menningu. Þeir hafa hótað að afnema alla þá tekjuöflun, m.a. auðlindagjald á sjávarútveg, sem fara á í þann rekstur. Hvað er það annað en andstaða við málið? Þeir hafa hæðst að verkefnum fjárfestingaráætlunarinnar. Þeir hafa lagst gegn öllu því þar sem orðið grænt kemur fyrir eða sem samsett er úr einhverjum orðum þar sem þessir stafir koma, g-r-æ-n-t, gegn öllum slíkum hugmyndum. Hvað er það annað en einbeitt andstaða við málið? Það er fullkomin andstaða við málið, ekkert annað. Þeir hafa talað gegn því öllu hér, bæði við umræðu um fjárlög og umræðu um rammaáætlun.

Afturköllun á tekjuöflun til þessara verkefna er yfirlýsing um andstöðu við þau, að sjálfsögðu. Nema hvað?

Hv. þingmaður undirstrikar sömuleiðis það sem ég sagði áðan um tengsl milli hagvaxtar og skurðgraftar. Það þarf að grafa skurð til að koma á hagvexti, vill hv. þingmaður meina. Það getur vel verið að hægt sé að koma upp hagvexti með því að grafa skurði, langa skurði og djúpa. Ég er alls ekkert að segja að ekki þurfi að gera það, en það er hægt að gera ýmislegt í viðbót. Það er hægt að gera ýmislegt annað, það er fleira sem knýr áfram hagkerfið en skurðgröftur og stíflur.

Ef við berum saman hagvöxt á Íslandi við það sem gerist í öllum samanburðarlöndum okkar, jafnvel þó að við höfum ekki náð þeim hæðum sem að var stefnt í upphafi í hagvexti samkvæmt spám sem gerðar voru hér 2009 og 2010, er allur samanburður Íslandi í hag. Undan því er ekki hægt að víkja sér.