141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Það er alveg klárt mál að hv. þingmaður hlustar með öðru eyranu á það sem við hann er sagt. Þannig snýst þetta við á leiðinni í gegnum hlustirnar.

Ég fullyrði að nægt efni er fyrir meiri hluta fjárlaganefndar, eða stjórnarmeirihlutann ef svo ber við að horfa, til að nýta úr gögnum stjórnarandstöðu síðustu þrjú árin. Það eru eingöngu tillögur sjálfstæðismanna sem eru 157. Framsóknarmenn hafa flutt tillögur, hv. þingmenn Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir hafa flutt tillögur o.s.frv. Öllu er hafnað, það er tilgangslaust að efna til einhvers samstarfs undir þeim formerkjum sem meiri hlutinn hefur boðið upp á. Og tillaga sjálfstæðismanna við fjárlögin núna varðandi tekjugreinina er ekki til þess, það skal alveg viðurkennt, að hugsa um meiri hlutann sem kallar eftir einhverjum tillögum. Hún er sett fram til að verja heimili landsins (Forseti hringir.) gegn því að skuldir þeirra hækki um 7–8 milljarða kr. undir skattstefnu núverandi ríkisstjórnar.