141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Merkilegt að heyra hjá hæstv. ráðherra, sem ég þakka fyrir ræðuna, að tillaga frá hæstv. fjármálaráðherra, um breytingar varðandi virðisaukaskatt, að hann lækki um 575 millj. kr., sé til komin vegna þess að nefndin sé að vinna með málið. Það er alveg nýtt í þingsögunni að þetta gerist svona. Ég hef hins vegar spurningar varðandi nokkur atriði í ræðu hæstv. ráðherra sem lúta að hinum gríðarlega halla sem menn tala alltaf um að hafi verið 216 milljarðar kr. og að búið sé að ná honum niður í 3 milljarða kr. miðað við þau fjárlög sem liggja fyrir.

Hvernig var þessi halli samsettur, 216 milljarðar kr., og með hvaða aðferðum — hvaða þættir eru í þeirri stærð — hefur núverandi ríkisstjórn náð honum niður um 213 milljarða kr.? Ég held að það sé ástæða til að greina það aðeins niður. Ég hef ákveðna sýn á þetta með tölu upp á 174 milljarða kr. ef ég man rétt, sem var bara í eitt skipti — en með hvaða aðferðum hafa menn náð niður hallanum upp að þessari fjárhæð? Mér finnst oft og tíðum gefið í skyn að það hafi verið einhver töfrabrögð. Það sem að stórum hluta skýrir þessa niðurstöðu er einfaldlega það að um er að ræða einskiptisaðgerð á árinu 2008 sem veldur þessari miklu sveiflu.

Ég óska einnig eftir því að fá upplýsingar frá ráðherra — það tengist líka utanumhaldi um ríkisfjármálin vegna áforma sem birst hafa í fjölmiðlum um Náttúruminjasafn Íslands — um á hvaða heimildum í fjárlögum þær viðræður og þau áform sem þar eru uppi byggja, áform um að ríkið leigi þetta hús. Þær viðræður standa, skilst mér, með ákveðnum fyrirvörum um að ríkið geri þetta. Á hvaða heimildum í fjárlögum byggja þessi áform?