141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[23:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun var fyrst lagt fram haustið 2011 á 140. löggjafarþingi. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 17. desember 2011 með þeim breytingum að gildistíminn var styttur úr tveimur árum í eitt ár og fleiri svæði felld undir svæði 2 þar sem heimilt er að endurgreiða 20% af flutningi á vörum ef lengd ferðar er meiri en 390 km.

Í gildandi lögum er kveðið á um að umsóknum um styrki vegna flutningskostnaðar sé skilað til ráðuneytis en í frumvarpinu er lagt til að umsóknir berist til Byggðastofnunar sem jafnframt annist afgreiðslu umsókna og endurgreiðslur vegna flutningskostnaðar. Svæðisbundin flutningsjöfnun fellur vel að hlutverki og verkefnum Byggðastofnunar um eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Það fer því betur á því að Byggðastofnun sjái um þessi mál en ráðuneytið.

Áfram þykir rétt að leggja til að gildistími laganna miðist við byggðakort ESA, eða til 31. desember 2013.

Ráðuneytið upplýsti við vinnslu þessa frumvarps atvinnuþróunarfélög, helstu flutningafyrirtæki og Byggðastofnun og gaf þeim kost á að koma að athugasemdum en engar athugasemdir bárust.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta álit skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Skúli Helgason, Álfheiður Ingadóttir, Birkir Jón Jónsson og Atli Gíslason.