141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi að gefnu tilefni vekja athygli á störfum þingsins. Núna er hv. stjórnarmeirihluti á handahlaupum við að afgreiða risastór mál og ég vek athygli hv. þingmanna, sem ekki vita, á því að komið hefur í ljós í umfjöllun nefndarinnar að sykurskatturinn sem var farið af stað með með lýðheilsumarkmiði er skattaívilnun fyrir karamellur og súkkulaði.

Vörugjaldsbreytingarnar sem áttu að verða til þess að einfalda vörugjaldskerfið eru orðnar að flækjustigi dauðans. Í gærkvöldi þegar orðið var dimmt úti, þegar orðið var nokkuð ljóst að enginn fjölmiðlamaður væri á svæðinu, var hér upplýst um að nú á að skattleggja sérstaklega hjólastóla, bleiur og smokka. Ég er ekki að grínast. Það er það sem á að fara að gera alveg sérstaklega.

Efnahags- og viðskiptanefnd á að koma fram með tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins. Það er allt í fullkomnu óefni í nefndinni vegna þess að í ljós hefur komið að þau mál sem koma frá ríkisstjórninni eru vægast sagt illa undirbúin. Við fengum í gær þær upplýsingar að það ætti að breyta ýmsum grundvallaratriðum. Ég vek athygli á því að hv. nefnd er ekki enn þá búin að fá breytingartillögurnar en miðað við þær upplýsingar sem við fengum munnlega í gær erum við að tala um hluti sem þarf að fara verulega vel yfir.

Þetta eru vinnubrögðin og hv. stjórnarþingmenn hafa talað um að hér hafi verið málþóf. Þeir hafa ekki verið í salnum af því að það var málþóf. Hvarflaði ekki að hv. stjórnarþingmönnum að fara þá að vinna í þessum stóru málum? (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegt mál.