141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[11:25]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í ljósi umræðunnar í gær er mikilvægt að við tökum málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég setti fyrirvara við þetta mál sem snertir sérstaklega skipun varadómara annars vegar og hins vegar ákvæðið sem snertir 70 ára aldurshámark. Ég hefði kosið að við sæjum heildstæða stefnu um það hvernig við getum stuðlað að því að leyfa þeim sem eru 70 ára og eldri að vinna og starfa innan stjórnsýslunnar.

Við munum fara með þetta mál milli 2. og 3. umr. til nefndar. Ég mun sitja hjá við allar greinar nema 3. gr. Þar er hin raunverulega tímapressa í málinu því að 3. gr. snertir framlenginguna varðandi héraðsdómara. Aðrar greinar verðum við einfaldlega að fara betur yfir í nefndinni.