141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[12:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að málið nái fram að ganga og að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af að það geri það ekki. Við höfum nægan tíma. En ég vil bara fordæmisins vegna taka fram að það er skoðun mín að þegar upp kemur slíkt vandamál eins og hér gerðist hlýtur formaður nefndarinnar eða talsmaður sem skipaður er í málinu að bera ábyrgð á málinu þegar upp er staðið. Það getur ekki verið þannig að það séu bara starfsmennirnir sem beri ábyrgð.

Ég vil taka það skýrt fram að ég skil umræðuna, ég skil ummæli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, en tekið var sérstaklega fram að mistökin væru ekki á ábyrgð þingmannanna, ég er ekki sammála því. Ég held að það hljóti alltaf að vera að lokum á ábyrgð okkar sem erum í forsvari fyrir þessi mál, ekki starfsmannanna.