141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg klárt fyrir að hallarekstur í ríkissjóði í ríkisreikningi verður svona 10 sinnum meiri en gert er ráð fyrir. Það eru mjög efnisleg rök fyrir því og ég bið hv. þingmann þá um að hrekja þau.

Það kom mjög skýrt fram frá forsvarsmönnum Norðurþings þegar þeir komu á fund fjárlaganefndar að þeir mundu ekki skrifa undir samningana í vor nema fjármunir í til uppbyggingar innviða væru tryggðir, þ.e. 2,6 milljarðar kr. Það er forsenda fyrir ákveðnum hluta af hagvextinum á næsta ári, reiknað er með þessum framkvæmdum seinni hluta árs 2013. Gangi það ekki eftir stenst tekjugrein frumvarpsins ekki, þ.e. sá hagvöxtur sem stendur undir henni. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það? Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði í gær verður þetta þá að koma inn í fjáraukalögin þannig að það er innbyggður halli að þessum hluta til inni í fjárlögunum.

Aðeins að því sem snýr að Íbúðalánasjóði af því að ég nefndi hann líka. Það kom fram á fundum hv. fjárlaganefndar að afskriftaþörfin er að lágmarki 6 milljarðar. Hér er ekki tekið á því heldur einungis gefið út skuldabréf og tekinn vaxtakostnaður svo það liggur alveg klárt fyrir að okkar mati að niðurstaða ríkisreiknings, miðað við þær forsendur sem við höfum til að meta það, er um 10 sinnum meiri en gert er ráð fyrir.

Síðan vil ég ítreka spurningar mínar til hv. þingmanns um upplýsingagjöfina sem við höfum kallað eftir inni í hv. fjárlaganefnd en hv. þingmaður hefur verið talsmaður þess að menn fái þau gögn sem kallað er eftir. Það eru sérstaklega upplýsingar um samstarfsyfirlýsingu sem byggir á breytingum á forsendum byggingar nýs Landspítala og um sýninguna sem er samstarfssamningur milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Hv. þingmenn í minni hluta fjárlaganefndar hafa ekki fengið þær upplýsingar þó svo að því væri lofað fyrir mörgum dögum að þær yrðu sendar þeim mjög fljótlega.