141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:00]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við eigum að styðja eins breitt atvinnulíf og við frekast getum. Við eigum ekki að veðja á einhæfnina, við eigum að veðja á fjölbreytnina í þessum efnum og það erum við að gera með t.d. fjárfestingaráætluninni sem er græni þráðurinn í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Hv. þingmaður spyr margs og þar á meðal kemur hann inn á launaþróun í landinu. Illu heilli hefur kynbundinn launamunur þrifist hér á landi allt of lengi og sá sem hér stendur hefur varpað fram þeirri hugmynd að fyrirtæki og stofnanir í landinu eigi að koma sér upp svokölluðu launamerki. Að fyrirtæki séu vottuð þannig að þau borgi konum og körlum sambærileg laun að fullu fyrir sambærileg störf og fái svokallað launamerki fyrir vikið. Ég tel þetta vera góða leið til að koma til móts við þennan vanda. Það er hins vegar mjög algengt, samkvæmt félagsfræðilegum rannsóknum, að efnahagshrun og efnahagslegur samdráttur bitni frekar á konum, illu heilli, heldur en körlum. Þess sér stað t.d. í fæðingarorlofi þar sem karlar sækja sér síður fæðingarorlof eftir barneignir kvenna sinna og njóta þess vegna ákveðins forgangs á vinnumarkaði. Þetta bitnar frekar á konum og fyrir vikið þrífst launamunurinn kannski betur þegar verr árar heldur en þegar betur árar. Þetta er félagsfræðilegt verkefni (Forseti hringir.) sem hefur verið skoðað. Þetta er helsta niðurstaðan og þess vegna birtist þessi launamunur kannski helst núna (Forseti hringir.) í eftirmálum hrunsins.