141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum komin í 3. umr. fjárlaga. Mig langar í upphafi að minnast orða hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar þegar málið var á dagskrá í 2. umr. ekki alls fyrir löngu, þá taldi hann að stjórnarandstaðan hefði tekið málið í gíslingu og að ekki væri hægt að greiða út laun til opinberra starfsmanna vegna þess. Ég vil rifja þau orð upp af því að langt er liðið að jólum og málið komið til 3. umr. Það sýnir hvað ríkisstjórnin og ráðherrar eru tilbúnir til að ganga langt í að þyrla upp ryki í kringum sína slæmu málefnastöðu. Það var gert til að fjölmiðlar mundu fara að beina athyglinni að því hvað stjórnarandstaðan væri að gera í stað þess að stjórnarandstaðan væri að benda á meingallað frumvarp.

Stjórnarandstaðan og þingmenn Framsóknarflokksins hafa bent á að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru óásættanlegar, um 86 milljarðar á ári, og svo mætti lengi telja. Hæstv. fjármálaráðherra hefur í málinu öllu, nú sem hingað til, verið að kasta sprengjum hingað og þangað til að dreifa athyglinni frá vonlausri efnahagsstjórn ríkisins sem virðist enn vera undir hans stjórn þrátt fyrir að í fjármálaráðuneytinu sitji nýr aðili.

Það er merkilegt að horfa til þess, þau undanfarin ár sem ríkisstjórnin hefur verið við völd, að ef eitthvað snertir fjármál ríkisins þá er hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sífellt til andsvara í stað þess að þær konur svari sem hafa farið með embætti fjármálaráðherra, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og nú hæstv. ráðherra Katrín Júlíusdóttir sem vermir fjármálaráðherrastólinn. Það er mjög einkennilegt. Stundum hefur verið sagt, eða gárungarnir hafa verið að tala um það að sá hæstv. ráðherra sé allsherjarráðherra, og hann virðist ekki ætla að bregðast trausti þeirra aðila sem halda því fram.

Það sem gerðist í umræðunni í dag um búnaðargjöld og fleira í þeim dúr, þegar verið var að samþykkja framlengingu á búvörusamningum, þá kom hv. þm. Helgi Hjörvar hingað í pontu og taldi það algera ósvinnu að ríkisstjórnin væri að binda hendur komandi ríkisstjórna og taka fjárhagsáætlanir fram í tímann í gegnum búvörusamninga. Sú skoðun er náttúrlega mjög lituð því að hv. þingmaður er mikill Evrópusambandssinni og vill sjá Ísland í Evrópusambandinu, en á sama tíma er verið að leggja til bindingu ríkisstjórna til framtíðar, eins og ég fór yfir í 2. umr., til dæmis með þeim gervitillögum, gæluverkefnum, sem eru lagðar til í frumvarpinu.

Það er gaman að fara ofan í fyrri hluta frumvarps til fjárlaga, það sem kallast Stefna og horfur þar sem farið er yfir fjárfestingaráætlunina og sjá út á hvað hún gengur. Ég hef bent á að tekjumöguleikar ríkissjóðs samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar eru ekki miklir. Sem dæmi má nefna á fjárfestingaráætlunin að byggjast fyrst og fremst á veiðileyfagjaldi, og byggist það á tveggja ára gömlum upplýsingum, virðulegi forseti. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin sé með okkur sem landsmenn í staðgreiðslukerfi skatta heldur er búið að taka upp í tíð þessarar ríkisstjórnar eftirágreidda skatta vegna þeirra mörgu skattþrepa sem nú eru komin inn í virðisaukaskattskerfið. Þar að auki á svo að fara að skattleggja sjávarútveginn eftir tveggja ára gömlum upplýsingum þannig að raunverulega veit enginn miðað við áætlanir, því að þetta kemur fram sem reiknilíkan í fjárlagafrumvarpinu, hvernig á að ná þeim tekjum inn. En tekjurnar eru þá byggðar á tveggja ára gömlum upplýsingum þannig að þegar veiðileyfagjaldið fer að bíta og útgerðin þarf að fara að borga þá eru jafnvel enn minni upphæðir í pottinum. Þetta er svo óábyrgt og svo óvönduð vinnubrögð sem birtast í frumvarpinu og fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Eins og við vitum á að selja eignir ríkisins til að standa undir þeim froðufjárlögum sem hér liggja fyrir til að uppfylla gæluverkefni ríkisstjórnarinnar á kosningavetri, takið eftir. Ríkisstjórnin er að stórauka verkefni á menningarsviðinu og á öðrum stöðum sem ekki er alveg séð að þörf sé fyrir. Því hef ég kallað mjög eftir forgangsröðun hjá ríkisstjórninni, sem enginn kemur auga á, enda er mikið happa- og glappaverklag hér og nauðsynlegir póstar ríkisins eru fjársveltir.

Ég hef ávallt staðið vörð um grunnstoðir samfélagsins svo sem lögregluna, dómstóla, Landhelgisgæsluna, málefni heimilanna, heilsugæsluna og skólakerfið, en þær grunnstoðir eru svo fjársveltar hjá ríkisstjórninni. Lögreglan getur vart sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Fangelsismál eru mjög fjársvelt, atburðir síðustu daga varðandi það sem gerðist fyrir austan fjall sýna það. Lagt er til að fara í byggingu á nýju fangelsi á Hólmsheiði en fjármögnun verkefnisins veltur á því hvort hægt sé að selja hlut í fjármálafyrirtækjunum eða hvað kemur mikið inn af veiðileyfagjaldi. Þetta er því allt byggt á mikilli óvissu.

Ég tel að það sé mjög óábyrgt að byggja fjárlög á hugsanlegum framtíðartekjum. En þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin virðist hafa tamið og tileinkað sér að einhverju leyti í vinnubrögðum. Og svo er verið að slá úr og í eins og til dæmis varðandi tekjuöflun ríkisins, þetta hringl með virðisaukaskattinn og gistingu. Farið er af stað með hæsta virðisaukaskattsþrepið, síðan er farið í 14% og svo þegar upp er staðið á að fresta gildistökuákvæðinu þannig að það hrukku um 600 milljónir út úr frumvarpinu í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra fékk afgreitt með afbrigðum breytingartillögu inn í fjárlögin, og gildistökuákvæðinu á að fresta. En vissulega, eins og hefur komið fram í fréttum í dag og á netinu, tryggði ríkisstjórnin sér þar með stuðning við fjárlögin að einhverju leyti. Þetta var sjónarspil þingmanna Bjartrar framtíðar því það virðist hafa farið svo að það leikrit hafi hreinlega verið í boði ríkisstjórnarinnar. Þingmenn settu sig upp á móti virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og svo er dregið í land með þessum hætti og þar af leiðandi er tekjuöflunarleið ríkisins þá að nokkru leyti gerð afturreka vegna þess að verið er að bakka og ekki staðið við ákvarðanir.

Talað er um að erlendir fjárfestar forðist Ísland sem fjárfestingarkost, þar sem verklagið liggur svo skýrt fyrir hjá ríkisstjórninni í þessu virðisaukaskattsmáli á ferðaþjónustuaðila. Sjaldan hef ég séð eins mikinn hringlandahátt og birtist akkúrat í því máli. Ég segi nú líka, hvernig í ósköpunum er hægt að skapa hér stöðugleika þegar stjórnvöld skipta svo oft um skoðun, koma fram með ofurskatta, stíga til baka, fara millileið, fresta gildistökuákvörðunum og svo mætti lengi telja? Það er mjög mikill óvissuþáttur að fjárfesta á Íslandi vegna óstöðugs stjórnarfars. Þegar talað var um það fyrir nokkrum árum að óstöðugt stjórnarfar væri fráhrindandi fyrir erlenda fjárfesta, og að það þekktist nú bara í Mósambík og Kúbu, þá hlógu Íslendingar. En því miður, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur komið okkur á þann stað að sá óvissuþáttur er orðinn mjög virkur og almennur þáttur í mati erlendra fjárfesta á Íslandi og á fjárfestingarkostunum sem finnast hér. Hverjum hefði dottið það í hug, eins og ég segi, fyrir tíu árum? Þetta er alveg hreint með ólíkindum, en það var svo sem vitað að um leið og vinstri stjórn tæki við þá mundi skattpíningarleiðin verða fyrir valinu og niðurskurður í forgangsverkefnum og það fjármagn fært yfir í gæluverkefni og nýja þætti sem vinstri menn leggja áherslu á, eins og til dæmis listir.

En nú er þetta komið hingað á nýjan leik inn í þingið. Fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, hefur skilað nefndaráliti, en hann er í 2. minni hluta fjárlaganefndar. Hann leggur áherslu á að vinnubrögð hafi ekki verið góð og að þetta mál hafi verið afgreitt frá fjárlaganefnd til 3. umr. á miklum hraða. Ekki var umsagnaraðilum gefið færi á að senda inn gögn eða umsagnir, hvað þá að umsagnaraðilar hafi verið kvaddir fyrir nefndina. Það er mjög slæmt þegar svo er að þeir aðilar sem sóst er eftir að fá fyrir nefndir þingsins komist ekki vegna tímaskorts. Það er akkúrat dæmi um slæleg vinnubrögð fyrst og fremst hjá löggjafanum og hjá þeim sem stjórna nefndunum að leyfa málunum ekki að verða útrædd í nefndum. Það er kannski ástæðan fyrir því að umræður í þingsal dragast á langinn. Í fyrsta lagi komast ekki allir þingmenn að, eins og til dæmis í fjárlaganefnd, og í öðru lagi ræða fjárlaganefndarmenn málin mikið út hér og eru með spurningar fyrir meiri hlutann og formann fjárlaganefndar, þannig að það bitnar kannski á tíma þingsins að því leyti.

Álit hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar má nálgast á vef þingsins, þingskjal 728 undir 1. máli. Þar er verið að velta vöngum yfir 6. gr. heimildinni og það er sú grein sem er notuð má segja til bráðabirgða. Þar er verið að færa til heimildir til handa fjármálaráðherra að taka ákvarðanir sem falla utan annarra greina fjárlaga.

Verið er að fara inn með 13 milljarða í Íbúðalánasjóð eins og komið hefur fram í fréttum og í umræðum í þinginu. Svo er gerð tillaga um að til gjalda verði færðar 585 millj. kr. vegna vaxtagjalda af lántökum sem ríkissjóður þarf að gangast undir vegna þessa framlags til Íbúðalánasjóðs upp á 13 milljarða. Þetta eru háar upphæðir. Íbúðalánasjóður er búinn að soga til sín mikið fé eftir bankahrunið. Ég hef því oft spurt sjálfa mig: Hvar stæðum við ef farið hefði verið eftir tillögum okkar framsóknarmanna um 20% flata leiðréttingu á íbúðalánum landsmanna? Talið var að Íbúðalánasjóður hefði ekki bolmagn til að taka þátt í þeirri leið og sú tillaga okkar var slegin út af borðinu af núverandi ríkisstjórn og henni fundið allt til foráttu.

Nú er Íbúðalánasjóður með þessu fjárframlagi búinn að fá beinar tekjur frá ríkissjóði á bilinu 40–50 milljarða. Það fer nú langleiðina af helmingi þess sem talið var að 20% leiðin mundi kosta Íbúðalánasjóð, þannig að þegar upp er staðið er alltaf að koma betur og betur í ljós að 20% leiðin hefði nýst vel fyrir landsmenn alla og þá hefði allt verið komið á ferð á ný í stað þess að hér er enn verið að skrúfa niður í frost, því miður.

Það sér hver maður að hefði sú leið verið farin á sínum tíma, að fella niður eitthvað af lánum upp að 20% hjá Íbúðalánasjóði, hefði sjóðurinn orðið rekstrarhæfari fyrir vikið. Þá hefði ekki þurft þessar smáskammtalækningar sem birst hafa í fjárlögum frá hruni, að ríkissjóður þurfi hreinlega að koma sjóðnum til bjargar með eigið fé. Ég er ekki að segja að það sé gott að vera vitur eftir á. Við framsóknarmenn vissum það allan tímann að sú leið væri fær og bentum jafnframt á að það væri leiðin sem ætti að fara. En vegna þess, virðist vera, að það kom frá okkur framsóknarmönnum en ekki frá ríkisstjórninni var talið að sú leið væri ófær, enda var miklu púðri eytt í það í síðustu kosningabaráttu hjá vinstri flokkunum að tala þá leið niður. Talað var um að þeir sem höfðu spilað hæst fyrir hrun mundu græða mest á niðurfellingunni og skuldugar fjölskyldur sem væru kannski með skuldir upp á 100–200 millj. kr. fengju hæstu afskriftina og það væri ósanngjarnt gagnvart hinum sem skulduðu lítið. Þessu höfnuðum við strax, virðulegi forseti, út af því að þetta var hlutfallsleið. Hvað hefur síðan komið á daginn? Þeir sem skulduðu mest fengu allar þessar niðurfellingar. Einstaklingur sem skuldar á bilinu 100–200 millj. kr. er nú þegar búinn að fara í gegnum umboðsmann skuldara og búinn að fá niðurfelldar allar sínar skuldir, er skuldahreinsaður, á meðan venjulega fjölskyldan sem fjárfesti einungis til þess að eiga íbúðarhúsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína, látlaust húsnæði, situr eftir með skuldirnar. Þetta er ósanngjarnt og það er akkúrat fólkið sem fékk niðurfelldar skuldir sem ríkisstjórnarflokkarnir bentu á að mundu græða mest á 20% leiðinni. Hvað stöndum við þá eftir með? Jú, þessi venjulegu heimili í landinu sem hafa farið varlega í fjárfestingum sitja eftir með skuldaklafa um hálsinn vegna þess að enginn kemur þeim til hjálpar og enginn sem hugsar um þær fjölskyldur, nema þá helst við í Framsóknarflokknum. Við höfum nú þegar lagt fram tillögur að úrbótum varðandi húsnæðisskuldir með þak á verðtryggingu og skattafslátt standi fólk í skilum o.s.frv., en það kynnum við betur eftir áramótin.

Í nefndaráliti minni hlutans er umfjöllun um 6. gr. og sóknargjöldin nefnd. Ég hef bent á það í ræðum að ríkissjóður er ekki að skila þeim tekjum til þjóðkirkjunnar, og það kemur fram í nefndarálitinu á bls. 3, sem ríkissjóður á að gera. Til að einfalda þetta og útskýra má segja að ríkissjóður sé vörsluaðili sóknargjalda fyrir þjóðkirkjuna nákvæmlega eins og rekstraraðili er vörsluaðili fyrir virðisaukaskattinn og skilar honum svo til ríkisins. Samkvæmt útreikningum heldur ríkið eftir 2 milljörðum í ríkiskassanum hjá sér en skilar því ekki út til þjóðkirkjunnar eins og ríkissjóði ber samkvæmt lögum. Það er alvarlegt þegar farið er fram með þeim hætti.

Í nefndarálitinu frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni er farið yfir beiðni um gögn vegna fjáraukalaga. Þingmenn fjárlaganefndar hafa verið óþreytandi við að benda á að fjárlaganefnd var neitað um gögn sem lágu til grundvallar fjáraukalögum og talað jafnvel um að hér hafi verið gengið svo langt í að neita hv. fjárlaganefnd um gögn að það jaðri við lögbrot. Það er því víða pottur brotinn og alveg með ólíkindum hvernig framkvæmdarvaldið, ráðuneytin, geta hafnað þingmönnum um gögn sem liggja til grundvallar fjárlögum og fjáraukalögum í ljósi þess að Alþingi fer með fjárlagavaldið og tekur ákvarðanir um í hverju á að ráðstafa ríkisfé. Þetta er einsdæmi verð ég að segja. Ég hef aldrei heyrt um það getið fyrr í nokkru þjóðríki eða nokkru þjóðþingi að framkvæmdarvaldið haldi gögnum frá löggjafarvaldinu sem er þó ákvörðunaraðilinn og ber fyrir rest ábyrgð á fjárlögum og fjáraukalögum í atkvæðagreiðslu. En þetta er hin gegnsæja ríkisstjórn, allt-uppi-á-borðum-ríkisstjórn, kallaði hún sig fyrir kosningar. Það átti svo sannarlega að taka til og kústa út úr öllum leyniskotum og hafa borðplötuna í borðinu gegnsæja. En hvað höfum við þingmenn orðið vitni að trekk í trekk? Það er að frekar er verið að loka upplýsingar niðri. Fyrirspurnum í þinginu er ekki svarað, hvorki munnlegum né skriflegum, og raunverulega eru veittar eins litlar upplýsingar og frekast er unnt. Það er því mikil tiltekt sem þarf að fara fram í Stjórnarráðinu þegar núverandi ríkisstjórn fer frá völdum í næstu kosningum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara meira yfir nefndarálit frá fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd því að hann gerði það sjálfur í ræðu í gær, heldur ætla ég núna að fara aðeins yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til. Það eru talsverðar breytingar á frumvarpinu á milli 2. og 3. umr. Þær breytingartillögur sem lagt er upp með beint inn í 3. umr. kosta ríkissjóð rúma 3 milljarða. Mér finnst það ansi vel í lagt þar sem fyrst eru fjárlögin lögð fram með áætlunum og kostnaðarskýringum, svo fer þetta í 2. umr. og þá koma inn fleiri kostnaðarliðir og svo núna í 3. umr. er lögð til rúmlega 3 milljarða aukning, þannig að allar upplýsingar sem liggja að baki þessum ákvarðanatökum eru mjög óljósar. Þó að fjárlagafrumvarpið komi hingað inn í þingið að hausti sem þingskjal 1 í þinginu, þ.e. þegar þing kemur saman eftir sumarleyfi, þá er raunverulega ekkert að marka það þegar upp er staðið því það tekur svo miklum breytingum þar til þetta allt liggur fyrir. Ég blæs á það hrós hæstv. ráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, að fjárlögin gangi betur af því að þau eru lögð fyrr fram og betri upplýsingar liggi að baki, vegna þess að í dag er 19. desember og nú þegar eru komnar fram gríðarlega miklar breytingar í gegnum þetta ferli.

Ég ætla að fagna því að loksins var hægt að semja við fjárlaganefnd, hv. þm. Björn Val Gíslason, formann nefndarinnar, um það að til komi aukið fjármagn inn í þingið varðandi til dæmis það sem átti ekki að setja inn í fjárlögin, því að fjárlögin komu þannig út að skerða átti Alþingi svo mjög. Til að Alþingi geti verið sjálfstæð stofnun og staðið sjálfstætt og verið þessi klettur við hliðina á framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu þá þarf að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þingsins, en það er ekki svo, virðulegi forseti, á meðan tillögur koma úr fjármálaráðuneytinu um hvernig Alþingi eigi að ráðstafa sínu fé. Bent var á það um leið og frumvarpið kom fram að það vantaði bæði til umboðsmanns Alþingis, sem er náttúrlega undirstofnun Alþingis, hliðarstofnun, eða sá aðili sem endurskoðar lagasetningu, og svo er aukning til Ríkisendurskoðunar, sem á að fara yfir ríkisreikning. Ég fagna því mjög að þær stofnanir Alþingis skuli vera styrktar með þessum hætti. Ekki veitir af því að mörg rannsóknarmál hvíla á ríkisendurskoðanda.

Eins er verið að bæta í rannsóknarnefndir Alþingis, um 103 millj. kr. Það framlag á að mæta kostnaðaruppgjöri vegna tveggja nefnda og upphafskostnaðar vegna þriðju nefndarinnar, þannig að það er komið í ferli. Svo eru það framkvæmdir á Alþingisreit, tæki og búnaður.

Svo er verið að leggja aukafjármagn í háskólana alla saman. Það er svolítið skrýtið að það skuli ekki hafa legið fyrir fyrr að meiri fjárþörf væri í háskólunum. Hér er hver háskóli að fá 30–40 millj. kr. nema Háskóli Íslands sem fær um 800 millj. kr. sem eiga að fara í byggingarframkvæmdir og tækjakaup, það er einn hluturinn af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar — 800 millj. kr. eiga að fara í hið svokallaða hús íslenskra fræða sem var tekið út úr atkvæðagreiðslunni í 2. umr., hún var dregin til baka þannig að hún er komin hingað inn aftur. Þá spyr maður sig: Hver er forgangsröðunin? Lögreglan telur sig þurfa 500 milljónir núna til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Er ekki rétt að bíða með hús íslenskra fræða upp á 800 milljónir og sinna því brýna verkefni að hlúa að lögreglunni í landinu í stað þess að fara með 800 millj. kr. inn í einhvern steypuklump sem má svo hæglega bíða þar til fer að braggast í efnahagslífi okkar á ný?

Eins og ég fór yfir í byrjun og hef farið yfir í ræðum mínum vantar mikið upp á forgangsröðunina og sýnin er ekki skýr hvar á að setja niður það fjármagn sem er verið að útdeila hér. Svo er verið að leggja aukalega mikið í ný verkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, það er því verið að keyra svolítið á þá stefnu. Við vitum að vinstri menn sækja fylgi sitt mjög til mennta- og listafólks þannig að verið er að klóra einhverjum þar á bak við eyrun með því að leggja svo mikla áherslu á þá málaflokka í fjárlagafrumvarpinu.

Það er annað komið inn sem ég gleðst yfir. Samkvæmt breytingartillögum á að auka í til Samtaka áhugamanna um áfengisvandamál. Nota á það fjármagn til að byggja upp þjónustu SÁÁ við eldri borgara. Svo á að leggja 15 millj. kr. í tímabundið framlag til undirbúnings nýrrar byggingar- og endurhæfingardeildar Grensáss, sem er alveg bráðnauðsynlegt að mínu mati, því að það góða starf sem þar fer fram verður að halda áfram. Lagt er til að Hlaðgerðarkot, sem er meðferðarheimili í Mosfellsdal, fái 7 millj. kr. framlag. Ég fagna þessum lið sérstaklega sem aukningu inn á milli umræðna því að þetta er eitthvað sem við verðum að hlúa að. Í svo erfiðu ástandi sem við búum við verður að tryggja það að slíku starfi sé haldið gangandi. Og því góða starfi sem er á Grensásdeildinni.

Ég er alltaf jafnhissa þegar ég sé hvað hin ágæta stofnun, Umhverfisstofnun, tekur til sín mikið af ríkisfé. Það er alveg hreint með ólíkindum að bætt skuli vera til Umhverfisstofnunar 28 millj. kr. á milli 2. og 3. umr. Hún er eiginlega orðin hálfgert apparat sem ég held að við verðum að endurskoða því að í gegnum umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun fer alveg gríðarlegt fjármagn. Það er alveg með ólíkindum hvað sá málaflokkur hefur tútnað út á liðnum árum og hvað Umhverfisstofnun er orðin umfangsmikil. Við þurfum að endurskoða það eitthvað, að ég tel, eftir kosningar. En kannski er ástæðan sú að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á náttúruvernd og umhverfislöggjöf sem við erum skikkuð til að taka upp, og eins og ég hef farið yfir áður, að þegar við þurfum að taka upp EES-gerðir þá fylgir því iðulega fjölgun starfa í opinbera geiranum, stofnun nefndar eða eitthvað annað, það eru gjarnan kallaðar stofur, eins og Fjölmiðlastofa eða Umhverfisstofa og hvað þetta heitir allt saman. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að endurskoða það hvernig þetta hefur getað þanist út á þessum tíma. Í nefndarálitinu og þessum breytingartillögum er enn verið að leggja til að þessi geiri fái aukið fjármagn.

Virðulegi forseti. Ég læt þessu lokið að sinni. Þessar breytingar koma hingað til atkvæðagreiðslu. Ég lýsi fullri ábyrgð á þessum fjárlögum á hendur ríkisstjórninni. Að mínu mati er verið að forgangsraða á rangan hátt. Við þurfum að sinna þeim grunni sem við byggjum á sem þjóð, og sem landsmenn þurfum við að sinna eldri borgurum, fötluðum og þeim atriðum sem ég fór yfir áðan, grunnþjónustu, lögreglu, heilsugæslu, skólum og öðru. Ekki er verið að gera það í þessu frumvarpi og í fjárlagavinnunni. Verið er að búa til kosningaloforð fram í tímann og mér hugnast það ekki, virðulegi forseti, að verið sé að setja fram einhverja vinstri framtíðarsýn á íslenskt samfélag, okkar góða samfélag, sem engum hugnast nema stækum vinstri mönnum. Það er ekki sú framtíðarsýn sem ég hef. Þess vegna tel ég að við sem þjóð séum allsendis óbundin af þeirri framtíðarsýn sem kemur fram í frumvarpinu.