141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari bara aðeins yfir hvernig þetta snýr að mér sem minnihlutaþingmanni í hv. fjárlaganefnd, þá er það með þeim hætti að ákveðið var að fara ákveðna vegferð með þetta verkefni. Síðan er tekin ákvörðun um að fara svokallaða blandaða leið, annars vegar að fara í ríkisframkvæmd með stærsta hlutann og fara svokallaða leiguleið með hinn hlutann. Þá er auðvitað mjög ankannalegt og maður áttar sig ekkert á því hvers vegna þær upplýsingar geta ekki komið inn í nefndina, og bara til að árétta það hvernig þetta er unnið þá er þetta minnisblað sem er samþykkt í ríkisstjórninni 30. nóvember.

3. umr. fjárlaga og úttektin hjá meiri hlutanum fór fram 11. desember og það gerðist meira að segja þannig að það varð að taka málið aftur inn í nefndina deginum á eftir, miðvikudeginum, til að setja inn þessa breytingu sem sneri að Landspítalanum í meirihlutaálitið. Það er auðvitað mjög bagalegt að þetta sé með þessum hætti.

Ég vil líka taka það fram þegar við ræðum þessa hluti að þegar við ræddum þá á sínum tíma var það þannig að ég setti alltaf stórt spurningarmerki við að fara svokallaða leiguleið. Ég gat aldrei séð hvernig við fórum að því að byggja nýjan Landspítala vegna þess að allur mannauðurinn og öll tækin voru í eigu ríkisins eða hvernig sem fór um það meðal þjóðarinnar en síðan fékk steinkumbaldinn að vera í raun og veru í þessari leiguframkvæmd. Einhvern veginn sló það mig þannig og ég tók það oft fram hvernig það gat verið að einhver þriðji aðili gæti fengið betri fjármögnun á þessu verkefni, þannig að ég setti alltaf mjög stórt spurningarmerki við að leiguleiðin yrði farin.

Síðan vil ég líka segja við hv. þingmann, og það segi ég í fullri vinsemd, að nú kemur hv. þingmaður og segir að staða ríkissjóðs sé með þeim hætti að það sé hægt að fara í þetta verkefni. Þá minni ég á að við erum að greiða 84 milljarða í vexti á næsta ári, við erum að borga 400 milljarða á næstu fjórum árum og fyrir utan það erum við með skuldir og skuldbindingar upp undir 2.000 milljarða hjá ríkissjóði.