141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég held að sé of snemmt að lýsa yfir einhverjum dauðadómi í þessu máli, en það fær mig enginn til þess að trúa því að hv. þingmaður meini það þegar hún segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um breytingu. Ákvörðun var tekin í lögum nr. 64/2010 um að bjóða þetta út í alútboði, byggingu Landspítalans og annað. Nú eru þar til bærir aðilar búnir að taka ákvörðun um að brjóta þetta upp í tvennt. Það á bara að bjóða hluta af þessum pakka út. Mér er alveg sama þó að menn kalli þetta fyrri áfanga eða annað, hluta af þessum fyrri áfanga lýkur bara með heildarpakka sem eru byggingar sem verða teknar á leigu, hinn pakkinn er ekkert í leigu. Ætla menn að dirfast að halda því fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um einhverja breytingu á þessu?

Ég spyr bara t.d. af því tilefni: Nú þegar liggur fyrir að um einn og hálfur milljarður í kostnaði við undirbúninginn liggur í þessu verki, hafa menn einhverja niðurstöðu í því hvernig á að brjóta upp þennan kostnað milli þeirra bygginga sem eiga að fara í leiguleiðina og hinna sem eiga að fara í opinberu framkvæmdina? Hvernig á að skipta þessum kostnaði á milli þessara tveggja verkefna? Liggur eitthvað fyrir um það? Hvernig ætla menn að bjóða þetta út núna í janúar til að fá tilboð öðruvísi en að fyrir liggi einhver kostnaðarskipting, til dæmis á þeim kostnaði sem þegar liggur fyrir? Hvað er verið að reyna að gera í þessu?

Það sem við gerum athugasemdir við er að stjórnarandstaðan hefur í rauninni engar forsendur til að ræða þetta nema út frá þeim plöggum sem eru smátt og smátt að tínast inn til okkar. Síðast í gær eða dag held ég var lagt fram skriflegt svar frá velferðarráðherra vegna fyrirspurnar Birnu Lárusdóttur um fyrirhugaða byggingu þar sem fram koma ákveðnar upplýsingar sem er mjög fróðlegt að sjá og skoða. Þær eru hluti af þeirri umræðu sem við ættum að taka hérna, til viðbótar síðan öðrum gögnum sem við höfum ekki fengið upplýsingar um eða fengið.