141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki segja að ég hafi verið að snúa út úr orðum hv. þingmanns og margur heldur mig sig. (Gripið fram í.) Mér var líka mjög misboðið þegar Sjálfstæðisflokkurinn stóð vaktina þegar allt hrundi í efnahagsstjórn landsins og mér er enn misboðið enn vegna þess að þá hrundi velferðarkerfið líka að hluta til. Sem betur fer tókst þessari ríkisstjórn að rétta úr kútnum því þar blasti við enn þá alvarlegri niðurskurður en varð og hver ber ábyrgð á því? Menn mættu haga orðum sínum með einhverri sómatilfinningu og ábyrgðartilfinningu gagnvart því sem hefur gerst. Þessi ríkisstjórn hefur gengið í gegnum erfiðar aðgerðir og reynt að hlífa heilbrigðiskerfinu í landinu sem mest og nú erum við komin á þann stað að það er ekki gerð nein hagræðingar- eða niðurskurðarkrafa á heilbrigðiskerfið í landinu, sjúkrastofnanir, öldrunarstofnanir eða annað.

Núna þegar ríkisstjórnin og við sem erum þar fótgönguliðar erum komin út úr þessum mikla og erfiðasta vanda sem við höfum unnið okkur í gegnum með blóði, svita og tárum segi ég: Það er efst á blaði hjá þessari velferðarstjórn að gera heilbrigðiskerfinu sem hæst undir höfði en við ætlum ekki að leggja niður allt annað í leiðinni, hvort sem hv. þingmaður kallar Náttúruminjasafn gæluverkefni eða annað sem fylgir menningu landsins. Ég er stolt af því að við Íslendingar leggjum fjármuni í það og öll þjóðin hlýtur að geta sammælst um slíkt. Þetta er menningararfur okkar allra.