141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Á margan hátt hefur átt sér stað ágætisumræða hér við lokaafgreiðslu fjárlaga næsta árs og hv. ræðumenn hafa komið víða við. Það vekur óneitanlega margvíslegar hugrenningar að hlýða á það með hvaða hætti stjórnarliðar nálgast þá umræðu sem hér hefur farið fram og þau markmið sem sett voru þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum vorið 2009 og hvernig þau hafa gengið eftir. Þegar stjórnarandstaðan reynir eðlilega að sinna því hlutverki sínu að veita stjórnvöldum aðhald er heldur dapurlegt að upplifa það að stjórnarliðar bregðist við sárir og reiðir í stað þess að eiga skynsamlega og góða rökræðu við stjórnarandstöðuna um þær ábendingar sem hún setur fram um stjórnarhætti og framgöngu þeirra við ríkisreksturinn.

Við höfum verið sökuð um að vera ekki í tengslum við raunveruleikann og að það séu á margan hátt ámælisverðar hugmyndir sem við erum að setja fram, að við gerum lítið úr þeim árangri sem hefur náðst o.s.frv. Að sjálfsögðu er það ekki svo, að sjálfsögðu gleðjumst við yfir hverjum þeim áfanga sem næst í þeirri glímu að koma böndum á þennan viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs. Það er meginverkefnið og um það er að minni hyggju ágæt pólitísk sátt á Alþingi eða samkomulag eða sama sýn til þess að þetta sé meginverkefni íslenskra stjórnvalda. Leiðirnar að því verki eru þó varðaðar ýmsum hindrunum sem sumum virðist erfitt að yfirstíga.

Það sem ég held að hafi truflað mest hæstv. ríkisstjórn við að halda þau markmið sem sett voru í samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda er pólitísk blinda og ofstæki að mörgu leyti. Það hefur verið undirliggjandi við framkvæmd ýmissa mála sem hægt er að fara í gegnum og hefur valdið lausatökum á ríkisrekstrinum af þeirri einföldu ástæðu að menn hafa einbeitt sér miklu fremur að því að koma höggi á pólitíska andstæðinga í ýmsum málum eða koma fram ýmsum verkefnum sem annar hvor stjórnarflokkurinn hefur talið sig bera pólitísku skylduna við. Þar er nærtækast að nefna fyrst aðildarumsóknina að Evrópusambandinu sem hefur verið megintilgangur Samfylkingarinnar frá því að hún var stofnuð og svo aftur á móti algjör andstaða við stóran hluta orkunýtingar, sérstaklega í vatnsafli, hjá Vinstri grænum. Þetta hvort tveggja hefur truflað núverandi hæstv. ríkisstjórn við það verkefni sem allir eru sammála um að sé meginverkefni íslenskra stjórnmála, að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs. Þetta hefur með öðru valdið því að menn hafa frestað ýmsum markverðum ákvörðunum í samstarfssamningnum og fært markmiðin aftar í tíma til að vinna upp glötuð tækifæri til að ná árangri að þessu leytinu til.

Það er hægt að telja upp ýmis önnur verkefni, sem snúa að þessu meginmarki, sem hafa brugðist. Annars vegar eru þetta verkefni sem lúta að stjórnsýslunni og ég nefndi hérna tvö þau stærstu. Hins vegar getum við litið á önnur verkefni sem voru sett á bið sem snúa að sjávarútvegi, orkuiðnaði, og ferðaþjónustu núna á síðustu missirum. Þarna þykir atvinnugreininni, ekki bara atvinnurekendum heldur verkalýðshreyfingunni líka, sem stjórnvöld hafi svikið sig í tryggðum þvert gegn fyrri áformum. Við sjáum þess stað í því að þau markmið sem lúta að atvinnuuppbyggingu, hagvexti, hafa gengið til muna hægar fram en áætlunin gerði ráð fyrir. Vissulega guma stjórnarliðar af því að hér sé hagvöxtur kominn af stað sem er alveg hárrétt en hann er einfaldlega allt of lítill og til muna minni en gert var ráð fyrir í áætlunum.

Af þessu leiðir að aginn og festan sem talað er um, regluverkið sem menn settu sér í áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á einhverjum árum, hefur ekki gengið eftir. Þótt ekki væri nema það eitt má nefna að á kjörtímabilinu hefur núverandi hæstv. ríkisstjórn skipað þrjá einstaklinga í embætti fjármálaráðherra, síðast núna á tæpu einu ári hafa þrír einstaklingar gegnt því hlutverki. Í forustu fjárlaganefndar hefur á þessum tæpu fjórum árum verið skipt fjórum sinnum um forustu. Það sjá allir sem vilja að á þessu er losarabragur, það er erfitt fyrir viðkomandi einstaklinga sem taka þetta að sér að fylgja af festu eftir þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin. Með þessu móti er ég ekki að draga í efa vilja viðkomandi einstaklinga til að gegna skyldum sínum eins vel og þeir geta en óhjákvæmilega leiða hin tíðu skipti einstaklinga í forustusveit þessara mála til þess að þeir þurfa alltaf að setja sig enn og aftur inn í ný verkefni.

Skortur á reglufestu hefur leitt það af sér að frávik frá fjárlögum er ævintýralega mikið í ríkisreikningi, allt of mikið, og ber vott um ákveðinn losarabrag þrátt fyrir tilraunir manna til að fela það í fjárlagagerðinni. Hafðar eru að engu ábendingar stjórnarandstöðunnar sýknt og heilagt um að dulinn halli sé í fjárlagagerðinni, að það skorti á að menn leggi fram raunverulegar áætlanir sem við vitum að komi út í ríkisreikningi.

Í þeirri stöðu sem upp kemur á kosningaári nýta eðlilega einstakir stjórnmálaflokkar, í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar hér úti í salnum, sér þessi tækifæri. Við sjáum þess stað, því miður, í því frumvarpi sem við erum að vinna með núna. Ég held að allir ráðherrar fái sitt í þessum fjárlögum. Innanríkisráðherra er með ýmis verkefni sem hann hefur einhvern veginn náð að koma fram í fjárlagagerðinni. Hæstv. menntamálaráðherra er með ýmis verkefni sem hann er að reyna að koma fram, m.a. verkefni sem ekki er einu sinni getið á fjárlögum áranna 2012 eða 2013. Það er svo langt seilst. Hæstv. velferðarráðherra hefur nú brotið upp samstöðu sem var um gríðarlega stórt verkefni, byggingu Landspítala. Áfram mætti telja, það eru allir að fá sitt.

Svo má minna á þá samninga sem gerðir hafa verið við Bjarta framtíð svokallaða, tvo þingmenn sem skipa þann flokk, sem meðal annars ollu því að bandormurinn, þ.e. frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, kom seint fram. Það var einfaldlega vegna þess að samningar stóðu yfir milli stjórnarinnar og þessara þingmanna. Svo vinnur hvað á móti öðru í þeim tillögum sem gerðar eru og settar fram.

Hef ég ekki lengri tíma en þetta?

(Forseti (ÞBack): Tíu mínútur.)

Eru ekki framsögumenn nefndarálita með tvöfaldan ræðutíma?

(Forseti (ÞBack): Þetta mun vera þriðja ræða hv. þingmanns.)

Önnur ræða.

(Forseti (ÞBack): Önnur ræða? Þá hafa orðið hér mistök. Bið ég hv. þingmann að halda áfram ræðu sinni og við lögum ræðutímann.)

Ég þakka, forseti. Ég skal ekki vera langorður mikið í viðbót, en ég þarf örlítið meiri tíma því að ég þarf að koma aðeins að því hvernig þessir hlutir ganga hver á móti öðrum sem tekið er til í því frumvarpi sem liggur fyrir og ég vil kalla kosningafjárlagafrumvarp.

Við heyrðum ágætlega áðan hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, 6. þm. Norðvest., þegar hún lýsti því hvernig jólasveinar stjórnarliðsins gengju um fjárlögin. Það er ágætislýsing. Við sjáum ausið upp úr poka jólasveinsins sem er hæstv. fjármálaráðherraígildi, og það er af ýmsum toga. Hv. þingmaður nefndi til dæmis vaxtabætur, barnabætur og niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði.

Förum aðeins yfir hvernig þetta vinnst. Vaxtabætur, þar sem bætt er í, og barnabætur nema 4–4,5 milljörðum kr. í fjárlögunum. Hvaða aðrar byrðar eru lagðar á þær fjölskyldur sem þessa munu njóta? Jú, aðrir skattar eru hækkaðir og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka sennilega um 6–7 milljarða kr. Þar með er það étið upp með einni handsveiflu. Hvernig verður étin upp niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar, sem hv. þingmaður nefndi áðan, upp á 175 millj. kr.? Þeir sem njóta þessara niðurgreiðslna búa á raforkusvæðum Rariks og Orkubús Vestfjarða. Arðkrafa ríkisstjórnarinnar á þessi tvö fyrirtæki, Rarik og Orkubúið, er samtals 360 millj. kr., þ.e. rúmlega tvöföld sú fjárhæð sem ætluð er í niðurgreiðslur. Rarik og Orkubúið hafa engin önnur tök en að velta þessari kröfu ríkisstjórnarinnar út í húshitunarkostnað á þessum sömu svæðum. Þetta þýðir til dæmis að fjölskylda á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða fær þúsund króna hærri reikning eftir áramót en hún ella hefði fengið. Þar með er niðurgreiðslan sem einstakir stjórnarliðar státa sig af fokin út í veður og vind.

Meginmarkmiðið í þessu er hins vegar að við náum að sameinast um það verkefni að koma böndum á sívaxandi skuldir ríkissjóðs. Hreinar skuldir eru einfaldlega orðnar allt of hátt hlutfall af landsframleiðslu og það verður ekki tekið á því öðruvísi en að menn breyti um vinnubrögð.

Þá kem ég að því sem hér hefur meðal annars verið rætt af nokkrum stjórnarliðum, þ.e. hvernig unnið er að fjárlagagerðinni. Þeir hafa sjálfir kvartað og ég þakka fyrir þá hreinskilni. Meginástæðan er sú að þingið hefur ekki tækifæri til að veita ríkisstjórninni aðhald við sína vinnu, hvorki við gerð fjárlagafrumvarpsins né í eftirfylgninni við það. Við sjáum það best á því með hvaða hætti stjórnarmeirihlutanum, og stjórnarandstöðunni þó sérstaklega, er meinaður aðgangur að upplýsingum í vinnu sinni við gerð fjárlaga. Það er alveg ljóst í vinnu haustsins að stjórnarliðar sumir hverjir hafa oft og tíðum gjörsamlega komið af fjöllum eins og hinir jólasveinarnir þegar einstaka tillögur ríkisstjórnarinnar hafa birst þeim á fundi fjárlaganefndar og með fyrirmælum um að tillögurnar skuli afgreiddar á sama fundi og þær eru lagðar fram á.

Meginatriðið í verkinu fram undan er þetta sem ég hef áður lýst og það verður ekki unnið öðruvísi en með þeim hætti að stjórnvöld á hverjum tíma standi með fólkinu og fyrirtækjunum í landinu og geri þeim kleift að búa til verðmæti úr þeim auðlindum sem er að finna á Íslandi. Það verður ekki gert ef stjórnvöld ætla að viðhafa sama háttinn og hefur verið viðhafður síðustu þrjú árin, að drepa allt í dróma hjá atvinnulífi landsins, vinna gegn þeim markmiðum sem Samtök atvinnulífsins, verkalýðsfélög og ASÍ hafa sett sér. Það hafa allir sett fram ríkan vilja til að vinna okkur í sameiningu út úr þessu vandamáli. Sá eini aðili sem svikið hefur alla í tryggðum, þrátt fyrir jafnvel skrifaða samninga, er ríkisstjórn Íslands. Það ber að refsa henni fyrir það.