141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með þessum síðustu fjárlögum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu dregst upp heildarmynd af aðgerðum hennar sl. fjögur ár. Við sjáum að ríkisstjórnin hefur sótt um það bil 90 milljarða með nýjum sköttum á þessu kjörtímabili, 90 milljarða með sköttum sem lagst hafa á heimilin og atvinnustarfsemina í landinu. Raunverulegur sparnaður er lítill, mest með því að skera niður fjárfestingu þannig að opinber fjárfesting er í dag hin minnsta í 70 ár. Engu að síður koma ráðherrar hingað upp, halda blaðamannafundi, efna til lúðrablásturs og slá sér á brjóst fyrir miklar opinberar framkvæmdir sem í reynd eru nær engar. Þetta eru verðbólguhvetjandi fjárlög, fjárlög sem setja vinnumarkaðinn í uppnám eins og við höfum fengið að fylgjast með undanfarin ár. Vaxtagjöld ríkisins vegna síaukinna skulda eru komin upp úr þakinu og það eru engar raunverulegar aðgerðir í kortunum af hálfu ríkisstjórnarinnar til að hefja niðurgreiðslu skulda. Þvert á móti er ríkisstjórnin komin í fullkomið öngstræti með því að kynna nú til sögunnar nýja lausn, (Forseti hringir.) sölu eigna til að standa undir rekstri. Það verður að hverfa af þessari braut.