141. löggjafarþing — 59. fundur,  20. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í athugasemdum við þetta lagafrumvarp koma fram þrjú markmið. Það er í fyrsta lagi að gera álagningu vörugjalda skilvirkari og einfaldari, sníða af agnúa og misræmi. Í öðru lagi að færa álagningu vörugjalda í það horf að gefa skýrari hagræn skilaboð til þess að færa neyslu matvæla í átt til aukinnar hollustu. Svo í þriðja lagi er nefnt að frumvarpinu sé einnig ætlað að auka tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum og miðað við umræðuna eins og hún hefur komið út hér í kvöld er það kannski það markmið sem næst. Fyrri markmiðin nást illa eða ekki. Frumvarpið nær ekki þeim árangri að gera vörugjaldakerfið skýrara og einfaldara. Það kann að sníða af ákveðna agnúa en hættan er sú að aðrir komi í staðinn.

Það virðist alveg ljóst, eins og hv. síðasti ræðumaður Skúli Helgason nefndi, að frumvarpið nær ekki þessum manneldissjónarmiðum nema hugsanlega að litlu leyti. Það er vísað til þess að það verði nú frekari endurskoðun á vörugjaldakerfinu einhvern tímann í framtíðinni og allt gott um það að segja. Því hefur oft verið lofað og vonandi verður það einhvern tímann efnt. Eins og hv. framsögumaður málsins, Helgi Hjörvar, nefndi hér í upphafi hefur einu sinni á síðustu árum verið stigið verulegt skref í þá átt. Það var árið 2007 þegar flokkar okkar hv. þm. Helga Hjörvars voru saman í ríkisstjórn og stigu verulega stórt skref í átt að einföldun. Það skref var hins vegar tekið til baka eins og fram kemur í gögnum málsins 2009. Það má segja að þetta frumvarp, svo langt sem það nær, virðist þegar búið að hrekja manneldissjónarmiðin og hugmyndina um einföldun og aðeins ná því markmiði að auka tekjur ríkissjóðs nokkuð.

Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að fjalla um marga þætti þessa máls, það hafa aðrir gert í þessari umræðu, en ef við erum alveg hreinskilin er auðvitað um að ræða enn eina skattahækkun þessarar ríkisstjórnar. Þetta er enn ein aðferðin sem hún notar til þess að krækja sér í auknar tekjur og kemur ofan á skattahækkanir sem hafa dunið á þjóðina á undanförnum árum hvað eftir annað, fyrir hver einustu jól og oft við önnur tækifæri líka.

Þetta er auðvitað skattahækkun sem almenningur greiðir. Það er enginn annar sem stendur straum af þessu en almenningur í landinu. Það mun koma fram í hærra vöruverði, bæði á þeim vörum sem um ræðir auk þess sem verðhækkunin hefur vísitöluáhrif. Að því leyti er eingöngu um það að ræða að ríkið er að taka meira til sín frá almenningi í landinu.

Það má gagnrýna marga þætti í þessu og hafa ýmsir hlutir verið nefndir. Ég ætla þó að segja að það eru ákveðin atriði í frumvarpinu sem að sönnu eru til bóta og til þess fallin að einfalda hlutina eða sníða af agnúa en gallarnir eru hins vegar of margir til að hægt sé að lýsa yfir stuðningi eða fagna frumvarpinu að öðru leyti. Þarna er um að ræða 800 millj. skattahækkun á næsta ári og á ársgrundvelli verður skattahækkunin meiri því eftir því sem fram kemur í málinu á hækkunin að taka gildi 1. mars og áætlað að úr því komi 800 millj. kr. í tekjur til ríkissjóðs.

Nú er það svo að það felast auðvitað mjög sérkennilegir hlutir í þessari skattstefnu. Það má auðvitað deila um grunnhugsunina, að það eigi að skattleggja hluti mismunandi eins og vörugjaldakerfið raunar byggir á. Hugmyndin á bak við það er ákveðin neyslustýring en maður hefur það á tilfinningunni að stundum sé andlag skattlagningarinnar valið eftir því hvort það er óvinsælt eða erfitt að verja það, að verja viðkomandi vöru. Þetta hafa stundum verið kallaðir syndaskattar sem menn hafa tilhneigingu til þess að leggja á, skattleggja áfengi, tóbak og nú sykurvörur sérstaklega af því að þeir sem fara með skattlagningarvaldið treysta því að það verði fáir til þess að verja þær vörutegundir. Það er nú undir ýmsu komið hvort skattlagningin hefur þau neyslustýrandi áhrif sem henni er ætlað en hugmyndin gengur auðvitað út á að þarna sé eitt tæki góðviljaðra stjórnmálamanna til þess að ákveða hvað fólki er fyrir bestu.

Ég leyfi mér að setja mikla fyrirvara við þá hugmyndafræði sem býr þarna að baki. Í þessu máli kemur auðvitað fram að þegar farið er út á þær brautir geta menn lent í mótsögnum. Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði grein fyrir ákveðnum atriðum í því í þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Hann nefndi meðal annars eldri dæmi um það þegar gosdrykkjaskattur lenti á vatni án nokkurs sykurs. Þannig dæmi eru í þessu líka. Ég velti fyrir mér hvernig menn ætla að skoða þetta varðandi sætuefnin. Það hefur verið bent á að þarna sé um að mikla skattheimtu að ræða á sætuefnin. Án þess að þekkja nákvæmlega til þess geri ég ráð fyrir að það sé einhver hugmynd að baki um að hafa eitthvert jafnræði milli vörutegunda, jafnræðið milli þess í sambandi við framleiðsluvörur og þess háttar og að það sé ekki mismunur á verði eftir því hvort sætuefni eða sykur er notaður. Ég reikna með því. Ég á ekki sæti í nefndinni þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvaða umræður hafa átt sér stað um það efni. Hins vegar er alveg ljóst að þessi skattur á sætuefni er gríðarlega hár.

Það má til gamans geta þess að ég las í gær grein eftir ágætan starfsmann tollgæslunnar sem lýsti því að verði þessar hugmyndir að veruleika verði ábatinn af því að smygla sætuefnum til landsins meiri heldur en af því að smygla amfetamíni eða kókaíni. Hann fór að velta fyrir sér hvernig eftirliti tollsins yrði háttað með þessari verðmætu vörur svo hún yrði ekki flutt ólöglega til landsins. (Gripið fram í: Sætuefnahundar …) Sætuefni, ég er að segja það. Hér eru nefndir sætuefnahundar. Kannski verða einhverjar slíkar leiðir farnar. Það er alla vega ljóst að þarna er um að ræða gríðarlega skattheimtu á vörur sem í sjálfu sér er erfitt að rökstyðja, alla vega er í mörgum tilvikum erfitt að rökstyðja það út frá einhverjum heilsufarssjónarmiðum.

Hæstv. forseti. Ég held að í stað þess að fara í þær breytingar sem hér eru lagðar til hefði hæstv. ríkisstjórn og meiri hlutinn í þinginu átt að hinkra aðeins við og velta fyrir sér hvort þau gætu ekki lokið því nefndastarfi sem vísað er til og átti að fela í sér einhverja heildarendurskoðun á vörugjaldakerfinu. Gátu menn ekki klárað þá vinnu áður en þeir komu með frumvarp hér inn? Var ekki möguleiki að ljúka verkinu í staðinn fyrir að koma með svona bútasaumsfrumvarp sem nær ekki nema að litlu leyti þeim markmiðum sem að er stefnt? Finnst mönnum engin ástæða til þess að læra af reynslunni í þeim efnum? Finnst mönnum það ekki varasöm leið, þessi skattlagningaraðferð sem notuð hefur verið hvað eftir annað, að taka svona búta hér og þar og breyta litlum atriðum án þess að hlutirnir séu ákveðnir í nokkru heildarsamhengi?

Ég vek athygli á því að hæstv. ríkisstjórn hefur auðvitað verið að völdum í næstum því fjögur ár. Sumarið 2009 lagði hún fram breytingar á vörugjaldakerfinu sem áttu að taka á aðkallandi og brýnum vanda í ríkisfjármálum, eins og þá var sagt. Því var jafnframt lofað að farið yrði í einhverja heildarendurskoðun á því sviði. Svo kemur fram í gögnum málsins að einhverjar nefndir hafi verið settar af stað vorið 2012 og þegar þetta frumvarp er samið eru þær ekki búnar að skila af sér. Það er auðvitað mjög sérkennilegt hvernig að þessum málum er staðið.

Áður en ég lýk máli mínu get ég ekki látið hjá líða að gagnrýna það að frumvarpið kemur inn í þingið um mánaðamótin nóvember/desember þótt strax 11. september, þegar fjárlagafrumvarp var lagt fram, hafi verið gert ráð fyrir þeim tekjuauka sem hér á að útvega. Það er eiginlega með ólíkindum, eins og reyndar á við um önnur skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar, að menn hafi ekki haft skýrari hugmyndir um það strax í haustbyrjun þegar þeir voru búnir að áætla einhverjar tölur inn í fjárlög og móta einhverja stefnu í þessum efnum. Maður hefði haldið að ekki hefði verið hægt að leggja fram frumvörpin. Þá hefði hugsanlega verið meira færi fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd til þess að fara almennilega ofan í kerfið og gera miklu meiri breytingar á málinu en kostur gafst til á þeim fáu dögum sem nefndin hafði það til meðferðar í þinginu.

Ég hef auðvitað ákveðna samúð með meiri hlutanum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem hafði örfáa daga, örfáa fundi, til að fjalla um breytingar á þessu frumvarpi. Ef málið hefði komið á sómasamlegum tíma inn í þingið frá hæstv. ríkisstjórn hefði nefndin að sjálfsögðu haft fleiri tækifæri til að gera breytingar, vonandi til bóta, í samræmi við þau góðu orð sem bæði hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar og hv. þm. Skúli Helgason höfðu uppi í ræðum sínum áðan. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefði borið frumvarpið fram snemma í haust og hæstv. ríkisstjórn hefði staðið að baki framlagningu þess á þeim tíma hefðu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í efnahags- og viðskiptanefnd, og reyndar öll nefndin, haft miklu betri tök á því að laga það sem er í ólagi í því máli. Það var auðvitað ekki. Maður veltir fyrir sér hvað býr að baki, hvort málið var einfaldlega í vandræðagangi í fjármálaráðuneytinu allan þennan tíma, hvort verið var að bíða eftir niðurstöðu úr nefndastarfi sem ekki kom eða hvað var eiginlega á ferðinni. Ég trúi því ekki að það hafi bara verið til þess að stjórnarandstaða og hagsmunaaðilar hefðu skamman tíma til þess að bregðast við hér í þinginu. Ég vil ekki ætla mönnum það þótt það sé auðvitað afleiðingin af því þegar mál koma fram svona seint að það er erfiðara fyrir þá sem hugsanlega hafa athugasemdir við þau að koma þeim á framfæri. Ég trúi ekki að það hafi verið meðvituð ákvörðun ríkisstjórnar eða hæstv. fjármálaráðherra að gera það með þeim hætti þannig að ástæðan hlýtur að vera einhvers konar vandræðagangur í ráðuneytinu varðandi útfærslu málsins.

Hver sem skýringin er er þetta slæmt. Það er gagnrýnisvert og gerir það auðvitað að verkum að erfiðara er fyrir okkur í þinginu og þá hv. nefnd sem hefur málið til meðferðar að laga til í því. Þess vegna eru breytingar sem komu frá hv. nefnd afskaplega litlar og rýrar og ná ekkert að taka á stóru göllunum á frumvarpinu. Það hlýtur að teljast töluverður galli á frumvarpi þegar það nær kannski ekki nema einu af þremur markmiðum sem nefnd eru sem rök fyrir því að fara út í þetta.