141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta velferðarnefndar. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem voru samþykkt á síðasta þingi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Gunnarsdóttur frá innanríkisráðuneytinu og Hrefnu Friðriksdóttur, lektor við Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu, sem í eðli sínu er einfalt, eru annars vegar lagðar til efnisbreytingar á nýju lögunum og hins vegar að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2013. Í efnisbreytingunum felst að ráðgjöf og sáttameðferð taki einnig til lögheimilis- og aðfararmála eins og frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2012 var breytt í meðförum Alþingis. Það má því segja að þar sé einungis um samræmis- og lagatæknileg atriði að ræða.

Nefndin hefur samkvæmt beiðni hennar fengið minnisblað frá innanríkisráðuneytinu þar sem fjallað er um ástæður þess að lagt er til að gildistöku laganna verði frestað, sem og hvernig vinnu verði háttað við undirbúning að gildistöku laganna eftir áramót. Kemur þar fram að þar sem lögin hafi verið samþykkt í júní hafi undirbúningur að gildistöku þeirra ekki hafist fyrr en í lok ágúst vegna sumarleyfa. Síðan þá hafi verið haldnir vinnufundir til að leita leiða til að framkvæma sáttameðferð á sem árangursríkastan hátt um allt land. Við þá vinnu hafa komið fram ýmis sjónarmið sem tekin verða til nánari skoðunar. Þá kemur einnig fram að lagaákvæðin um sáttameðferð eru mjög opin og krefjast því mikillar undirbúningsvinnu. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hún geti mótast í meðförum sýslumanna en aðstæður sýslumanna, t.d. varðandi málafjölda, kunna að ráða miklu um hvernig sáttameðferðinni verður hagað hjá einstökum sýslumönnum, t.d. varðandi vinnuframlag og ráðningarform sérfræðinga í málefnum barna og sáttameðferð. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir 30 millj. kr. fjárveitingu til sáttameðferðarinnar á næsta ári sem ráðuneytið telji að sé hæfilegt fjármagn til hálfs árs sáttameðferðar. Ekki fékkst hærri fjárheimild fyrir verkefninu á næsta fjárlagaári vegna aðhalds í ríkisfjármálum eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Meiri hlutinn telur að erfitt sé að áætla kostnað við sáttamiðlun og vandkvæðum bundið að leggja mat á það hvort þær 30 millj. kr. sem veittar eru til verkefnisins dugi jafnvel þó að lögin tækju gildi fyrr en frumvarpið kveður á um. Eins og áður segir er sáttameðferðin í raun og veru enn í mótun og erfitt að segja nákvæmlega til um hversu mikið hún mun kosta.

Fyrir nefndinni kom fram að erfitt væri að fresta gildistöku einstakra ákvæða laganna en annarra ekki þar sem slík framkvæmd væri bæði lagatæknilega flókin og til þess fallin að skapa ákveðna réttaróvissu. Einnig er vert að benda á að það er mat sérfræðinga að útilokað sé að útfæra slíka ráðstöfun svo vel megi fara, erfitt sé til að mynda að aðgreina dómaraheimild og ráðgjöf og sáttameðferð þar sem ráðgjöf og sátt er forsenda þess að dæmd sé sameiginleg forsjá. Það kom einnig ágætlega fram í umræðunni í nefndinni að í raun og veru má segja að sú góða þverpólitíska sátt sem náðist í nefndinni var einmitt að við breyttum frumvarpi ráðherrans og legðum það til að dómaraheimildin væri tekin inn þar sem dómari getur dæmt sameiginlega forsjá og ákveðið ráðgjafar- og samningaferli hefði farið fram.

Þótt heimildarákvæði sé um sáttameðferð í núgildandi lögum er það ekki nógu afgerandi til að byggja dóm um sameiginlega forsjá á. Meiri hlutinn telur brýnt að kapp sé lagt á að ljúka þeirri undirbúningsvinnu sem nauðsynlegt er að fram fari hjá sýslumannsembættum og öðrum þeim er málið varða en telur þó mikilvægt að lögin taki gildi sem fyrst og bendir í því samhengi á að nú þegar eru sex mánuðir liðnir frá samþykkt umræddra breytinga. Í ljósi þess telur meiri hlutinn rétt að stytta frest þann sem gerður er á gildistökuákvæði laganna og leggur til breytingartillögu þess efnis.

Þegar lögin voru samþykkt á Alþingi hafði innanríkisráðuneytið rúmlega sex mánuði til að undirbúa gildistökuna en málið var upphaflega lagt fram á Alþingi þann 17. nóvember 2011. Meiri hlutinn telur að í lögunum felist miklar réttarbætur eins og ráða má af nefndaráliti nefndarinnar frá síðasta þingi. Það er því meiri hlutanum erfitt að samþykkja tillögu til frestunar á gildistöku þeirra en eins og málum er nú háttað telur hann óhjákvæmilegt að fresta gildistökunni en leggur þó til að frestunin verði styttri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. að lögin taki gildi 1. apríl 2013. Meiri hlutinn leggur á það ríka áherslu að næstu þrír mánuðir verði nýttir vel til undirbúnings að gildistöku laganna og minnir á að aukið fjármagn geti þurft í verkefnið vegna þeirra þriggja mánaða sem bætt hefur verið við gildistímann.

Þá hefur meiri hlutinn einnig rætt að það er að hluta til óábyrgt að gera annað en að samþykkja þennan frest vegna þess að því miður komst sá kvittur á loft, og má segja má segja að ráðherra hafi rætt það opinberlega, að til stæði að fresta gildistöku laganna. Það varð einhvern veginn til þess að allur undirbúningur hægði á sér í dómskerfinu, réttarkerfinu, samfélaginu og kerfinu öllu þannig að það má segja að með því að ákveða að fresta gildistökunni ekki, eins og ég veit að minni hluti nefndarinnar mun ræða á eftir, heldur láta lögin taka gildi eins og til stóð þann 1. janúar er ég hrædd um að til verði ákveðin réttaróvissa í þessum viðkvæma málaflokki. Það finnst mér maður ekki mega gera í málefnum barna. Þótt hér sé svo sannarlega um margar góðar réttarbætur að ræða tel ég að ef þær eru illa undirbúnar sé betra að nýta þá þrjá mánuði sem við leggjum til til að vinna það mál vel, málefnum barna til mikilla hagsbóta.

Meiri hlutinn leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað orðanna 1. júlí 2013 í 4. gr. komi 1. apríl 2013.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú er hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Kristján L. Möller, Þuríður Backman og Árni Þór Sigurðsson.