141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U) (andsvar):

Frú forseti. Þessi tiltekni gestur, sem ég ber líka mikla virðingu fyrir, lýsti því líka yfir að hún hefði ekki skoðað ýmis álitamál almennilega í þessu sambandi og hefði þurft meiri tíma til þess. Þessi fundur stóð í einhverjar 20 mínútur eða svo í fundarhléi og manni gafst ekki einu sinni tóm til að spyrja spurninga út í þetta allt saman. Mér finnst ekkert sanngjarnt að vísa á einhvern hátt í þá umræðu, bara á engan hátt.

Svo er það þetta að kerfið búist við því að gildistöku laganna verði frestað. Það er líka fólk þarna úti sem á í forræðismálum og er með hjartað í buxunum yfir því hvort þessi ákvæði gangi ekki örugglega í gildi 1. janúar 2013, eins og við höfum sagt að muni gerast. Hér verða menn að vega og meta. Eigum við ekki að standa varðstöðu um orð Alþingis, niðurstöður löggjafans? Við segjum að þessar réttarfarsbætur eigi að taka gildi 1. janúar 2013. Það er okkar, þingsins, að ákveða þetta. Skilaboð okkar til almennings á þessari stundu eiga að vera þau að það eru ákvarðanir Alþingis sem standa í þessum efnum. Hvað annað ætlum við að bjóða upp á? Eigum við að fara í einhvern réttaróvissuleiðangur með svona mikilvægar réttarbætur og binda gildisákvæði þeirra við það hvenær kerfið telur sig mögulega vera tilbúið í ákveðna tegund af þjónustu?

Svo rakti ég það í ræðu minni að kerfinu er kannski ekki svo mikil vorkunn. Nú þegar er verið að bjóða upp á mjög áþekka, ef ekki nánast sömu, þjónustu á vegum sýslumanna og líka mjög víða úti í þjóðfélaginu. Vegna þess að ákvæði 12. gr. um sáttameðferðina er tiltölulega opið, það kveður bara á um þá skyldu að foreldrar skuli leita sátta, er vel hægt að beina foreldrum (Forseti hringir.) annars vegar til sérfræðinga á vegum sýslumanna núna eins og áður (Forseti hringir.) eða hins vegar til einkaaðila.