141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það hafi komið fram í rökstuðningi sérfræðings sem kom fyrir nefndina að það væri áhættusamt að fara í þessa uppskiptingu, að fara þá leið að splitta þessu upp. Það væri flókið lagatæknilegt mál sem þyrfti talsvert mikla yfirlegu vegna þess að þetta hefði ekki verið undirbúið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að frestun á gildistöku til 1. júlí. Það hafði enginn í raun og veru látið sér detta það í hug að fara í slíka uppskiptingu án þess að það hefði verið undirbúið. Það kallaði á heilmikla vinnu. Það tel ég að hafi komið fram í máli sérfræðingsins, sem er kannski einn helsti sérfræðingur okkar í þessu lagaverki. Hún taldi sjálfa sig að minnsta kosti þurfa talsverða yfirlegu til að klára slíkt. Þannig að ég tel að því hafi í raun verið svarað þar.

Þá er spurningin þessi hjá hv. þingmanni: Verður ekki að vega og meta hagsmunina og segja: Það eru meiri hagsmunir barnanna vegna og þeirra sem eiga að búa við þessi lög að innleiða þau þrátt fyrir allt og það sé mikilvægt þó að kerfið sé ekki tilbúið, af því kerfið eigi að þjónusta fólk? Þarna takast auðvitað á tvö meginsjónarmið. Í mínum huga liggur það fyrir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr — og ég er alveg jafnóánægður með það eins og hv. þingmaður að kerfið skuli ekki vera reiðubúið til að hefja innleiðingu um næstu áramót — og hefur komið fram í málinu að kerfið er ekki tilbúið. Ég tel að það skapi réttaróvissu fyrir þá sem við eiga að búa, að láta lög öðlast gildi sem ekki er hægt að innleiða vegna þess að kerfið er ekki tilbúið til þess.

Þess vegna held ég að það séu meiri heildarhagsmunir, já, að fresta gildistöku laganna og reyna að stytta (Forseti hringir.) þann tíma eins og frekast er kostur.