141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held við verðum að vera sammála um að vera ósammála. Ég tel að þetta skapi ekki réttaróvissu. Ég held hins vegar þvert á móti að það skapi réttaróvissu að fresta gildistöku laga um hver réttindi barns eru, boða frestun á því að hér taki lög gildi um áramótin sem innihalda ákvæði almennt um inntak forsjár, ákvæði sem menn töldu sig vita að mundu taka gildi. Ég tel að það skapi meiri réttaróvissu að fresta því að gildi taki ákvæði um forsjá stjúp- og sambúðarforeldra. Ég tel að það sé eitthvað sem er „aktúelt“ hjá fólki í þeim fjölskylduaðstæðum sem hefur búist við því að þetta ákvæði taki gildi um áramótin.

Gildistakan hefur legið fyrir í nokkurn tíma og ég tel að sú ákvörðun ráðuneytisins að fresta engu að síður öllu heila dæminu í staðinn fyrir að reyna að horfa til þeirra mikilvægu atriða sem fólk býst við að taki gildi og hefur búist við frá því þessi umræða hófst á síðasta þingi, skapi réttaróvissu og ég held að við séum öll sammála um að þessi vinnubrögð séu ekki til fyrirmyndar. Þetta er ömurleg staða. Ég tel að það verði að horfa til heildarinnar og þar með að hafna því að fresta gildistöku laganna.