141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hv. þingmanni og formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, að þessar tillögur hafi ekki fengist ræddar í fjárlaganefnd, þær voru ræddar á fundi þar í morgun. Þær tillögur sem koma í nefndaráliti frá minni hluta fjárlaganefndar voru ræddar þar í morgun. Síðan flutti ég tillögu núna áðan og lagði hana fyrir þingið. Það er ekki tillaga frá fjárlaganefnd og þar af leiðandi ekki rædd þar. Aðrar tillögur voru hins vegar ræddar og eru fullræddar og það var ekki beðið um orðið til að ræða þær frekar.

Í öðru lagi var ekki um söluferli að ræða við einkavæðingu bankanna frá 1998–2002 heldur um afhendingu banka að ræða. Það var ekkert ferli í gangi, ekkert lagalegt og ekkert regluverk um hvernig átti að selja fjármálafyrirtæki. Það er verið að setja hér. Þess vegna er ekki óþarfi að setja lög um slíka framkvæmd eins og við erum að reyna að gera í dag. Frumvarpið sem er fjallað um snýst ekki um að selja banka og selja hluti heldur að setja regluverk og eitthvað lagalegt í kringum það. Það var ekki til og það var ekkert slíkt ferli í gangi.

Í þriðja lagi hef ég ekki enn heyrt hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill gera í þessum málum. Ég hef ekki séð neinar einustu tillögur um það. Er hv. þingmaður á móti því að það sé lagagrunnur að sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Hvernig vill hann þá hafa þetta? Hann sagði að það væri óþarfi að setja um þetta lög. Ég er algjörlega ósammála honum í því. Hvernig vill hann hafa þetta? Hverjar eru þá tillögur sjálfstæðismanna varðandi þetta frumvarp annað en að fella það? Á ekkert að koma í staðinn?