141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður má eiga það að hann bendir á nokkra þætti sem er full ástæða til þess að velta fyrir sér þegar eignarhlutir eru seldir í fjármálafyrirtækjum, t.d. eins og hverjir eru hæfir eigendur. Það er ekki fjallað um það hér. Það er gert í annarri löggjöf en sú löggjöf var líka til staðar þegar fyrri eignasalan átti sér stað. Það má velta fyrir sér hvort gott sé að hafa bankann í breiðu eignarhaldi eða með stórum kjölfestufjárfesti. Það eru stjórnarflokkarnir sem skila auðu um það. Það er spurt hvað Sjálfstæðisflokkurinn vilji gera en hvað vilja þeir sem mæla fyrir málinu gera varðandi það atriði? (Gripið fram í.)

Þegar kemur að öðrum þáttum sem geta skipt máli erum við farin að ræða hversu mikil viðskipti eigendur bankans mega hafa við bankann og hvaða ábyrgð þeir þurfa mögulega að standa undir séu þeir í einhverjum slíkum viðskiptum. Um það eru fjölbreyttar reglur í hinum ýmsu löndum en stjórnarflokkarnir skila auðu um öll þau atriði. Í raun og veru er öllum atriðum sem hafa komið til pólitískrar umræðu og varða sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum ósvarað í þessum málum vegna þess að þetta er ekki frumvarp um neitt annað en að selja hlutina og fela ráðherranum að leiða það söluferli. Öllum viðkvæmu og stóru atriðunum, sem hafa verið rædd og eru vissulega tilefni til umræðu hér, og svo sannarlega er ástæða til að spyrja sig hvort það hefði átt að standa að hlutunum einhvern veginn öðruvísi á fyrri stigum, t.d. með dreifða eignarhaldið, þeim er ósvarað í málinu. Það þýðir ekkert að koma hingað upp og segja: Það er Sjálfstæðisflokknum að kenna. Það er ekki hann sem leggur fram þetta mál.