141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Þetta mál kemur manni sífellt meira á óvart, það er að taka breytingum hér alveg út í það óendanlega. Hér er hv. formaður fjárlaganefndar að kynna enn eina breytingartillöguna sem verður til í kvöld, klárlega, en hann kemur hingað upp og spyr hvort sjálfstæðismenn vilji að bankarnir verði afhentir án nokkurra reglna. Hvernig dirfist hv. þingmaður að ræða þetta þannig og gefa í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn vinni með þeim hætti?

Stærsta einkasala í bankakerfinu fór fram af þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, formanni Vinstri grænna, og svo vill til að hv. formaður fjárlaganefndar tilheyrir þeim flokki. Hvernig var sú einkaframkvæmd unnin? Í algjöru heimildarleysi. Það var ekki stafkrókur í lögum, engin heimild til hæstv. þáverandi fjármálaráðherra til þeirrar sölu. Málið endaði á þann veg að óskað var eftir áliti Ríkisendurskoðunar á meðferð mála. Álit kom frá Ríkisendurskoðun 15. desember 2009 sem leiddi til þess að frumvarp var lagt fram milli jóla og nýárs árið 2009 til að leita eftir heimild Alþingis til þeirrar gjörðar sem framkvæmd hafði verið fyrr á árinu. Svo tala menn digurbarkalega um að aðrir stjórnmálaflokkar séu að tala fyrir því að afhenda eitthvað sem ríkið á. Ég held að menn ættu að líta sér nær og horfa til þess (Gripið fram í: Bera ábyrgð.) og bera ábyrgð.

Við höfum talað fyrir því í þessu máli, og það kom ágætlega fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni hér áðan og er raunar rökstutt í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar sem hv. formaður fjárlaganefndar talar fyrir, að eðlilegt væri í ljósi reynslunnar hjá íslenskum stjórnvöldum, bæði við síðustu einkavæðingu bankanna á árinu 2009 og ekki síður hina fyrri, að reyna að draga lærdóm af niðurstöðu rannsóknarnefndar sem skipuð hefði verið. Er óeðlilegt að vinna hlutina þannig? Í ljósi þess hvernig málið hefur þróast í meðförum stjórnarmeirihlutans teldi ég affarasælast að menn biðu með að afgreiða þetta þar til við sæjum niðurstöðu þeirrar vinnu sem Alþingi setti í gang beinlínis til að reyna að draga lærdóm af.

Í fyrsta áliti meiri hluta fjárlaganefndar kom fram að frumvarpið væri lagt fram til þess að gefa ráðherra almenna heimild til sölu á þessum hlutum. Ég hef ekki heyrt menn ræða í kvöld um þá almennu heimild heldur þvert á móti reyna að halda því fram að eitthvað allt annað sé í gangi. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því í þeim ræðum sem hafa verið fluttar um málið. Ég kýs að túlka þessa nýjustu tillögu, sem hv. þm. Björn Valur Gíslason flytur, sem tilraun til þess að reyna að koma málinu með einhverjum hætti í gegnum þingið án þess að það verði fellt.