141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mótmæla því að ég sé með einhver undanbrögð í þeim svörum sem ég veiti hér. Ég hélt að ég hefði talað skýrt.

Ég sagði að á síðasta ári hefðu verið áætlaðar 10 milljónir í flug til Sauðárkróks en það ekki reynst nægilegt. Við vildum kanna hvort einhverjir aðilar væru tilbúnir, og þá á hvaða forsendum, til að halda uppi flugsamgöngum við Sauðárkrók. Við stefnum að því þessa dagana að opna flugvöllinn á Sauðárkróki svo þetta megi verða ef vilji er fyrir hendi.

Eru þetta ekki skýr svör? Þetta eru alveg skýr svör.

Ég er búinn að ræða þetta við alla hlutaðeigandi aðila. Það er vissulega ríkisstofnunin Isavia sem rekur flugvellina. Þetta hefur verið rætt. Ég hef rætt þetta við sveitarstjórnarmenn frá Sauðárkróki, Skagfirðinga, og við höfum farið yfir þessi mál. Þetta er alveg skýrt og það eru engin undanbrögð í þessu. Því fer fjarri að það sé einhver sérstök löngun hjá mér að murka lífið úr innanlandsfluginu.

Við erum núna að vinna að sérstakri könnun á mikilvægi flugsins fyrir samgöngur í landinu, þá sérstaklega fyrir landsbyggðina. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég skal játa að ég tel að á undanförnum árum höfum við ekki sinnt fluginu sem skyldi. Menn tóku ákvörðun fyrir fáeinum missirum um að draga úr vægi flugsins í samgöngukerfi landsins. Ég vil láta endurskoða það og við erum að vinna að því.

Varðandi álögurnar er það nokkuð sem kemur ekki til núna um áramótin heldur í apríl. Þær hafa að hluta til hækkað í samræmi við verðlagsþróun frá aldamótum. Í apríl í fyrra vorum við komin í svipaðar hæðir og upp úr aldamótunum ef ég man rétt, kannski ívið hærra. Við erum hins vegar að fara ofar núna vegna þess að það skortir fjármagn til þess (Forseti hringir.) að rækja nægilegt viðhald á flugvöllunum í landinu. Það var ástæðan, fjárskortur ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Þetta eru ástæðurnar. Við erum að skoða þetta mjög alvarlega og ég er að skoða innanlandsflugið með hagsmuni landsbyggðarinnar (Forseti hringir.) sérstaklega í huga.